Lið Menntaskólans í Reykjavík fór með sigur af hólmi í Boxinu - framkvæmdakeppni framhaldsskólanna sem fram fór í Háskólanum í Reykjavík á laugardag. Lið Tækniskólans og Verzlunarskólans voru jöfn í öðru og þriðja sæti. Þetta er annað skiptið sem keppnin er haldin.

Lið frá átta framhaldsskólum kepptu til úrslita í Boxinu. Í keppninni þurfa framhaldsskólanemendur að leysa þrautir sem reyna á bæði hugvit, verklag og samvinnu. Um þrautabraut er að ræða með nokkrum stöðvum og fara liðin á milli og leysa eina þraut á hverjum stað. Fimm nemendur eru í hverju liði. Þau lið sem kepptu til úrslita fengu flest stig í undankeppni.

Markmiðið með keppninni er að kynna og vekja áhuga á tækni, tækninámi og störfum í iðnaði og gera verkviti hátt undir höfði. Þrautirnar eru margvíslegar og útbúnar af fyrirtækjum úr ólíkum greinum iðnaðarins í samstarfi við fræðimenn Háskólans í Reykjavík. Fyrirtækin sem komu að gerð þrautanna eru ÍAV, Marel, Skema, Gæðabakstur, Actavis, Járnsmiðja Óðins og Marorka.

Háskólinn í Reykjavík, Samtök iðnaðarins og Samband íslenskra framhaldsskólanema standa að Boxinu.

Hér má sjá nokkrar myndir frá keppninni auk sigurvegaranna.

© Aðsend mynd (AÐSEND)

© Aðsend mynd (AÐSEND)

© Aðsend mynd (AÐSEND)

© Aðsend mynd (AÐSEND)

© Aðsend mynd (AÐSEND)

© Aðsend mynd (AÐSEND)