*

laugardagur, 26. september 2020
Erlent 17. desember 2015 11:35

Liðið ár og alþjóðasamfélag

Árið sem nú líður var gífurlega viðburðaríkt, og bæði gerðust góðir hlutir og slæmir um heim allan.

Ritstjórn
european pressphoto agency

Árið 2015 var vægast sagt viðburðaríkt þegar litið er til heimsfrétta. Til að mynda má nefna að borgarastyrjöldin í Sýrlandi, voðaverk ISIS, deilur Rússa og Tyrkja og flóttamannavandinn hafi haft heljartak á athygli fjölmiðla.

Það áttu sér einnig stað umbætur víðast hvar í heiminum. Til að mynda lögleiddu Bandaríkjamenn loks samkynja hjónabönd, bættu samskipti sín við Kúbu og sömdu loks við Írani um kjarnorkureglugerðir í samstarfi við aðrar þjóðir.

Í Kína er hjónum nú loks leyfilegt að eignast fleira en eitt barn eftir þrjátíu ár af miðstýringu á æxlun landsmanna af hálfu kommúnistaflokksins. Þjóðverjar og Svíar hafa tekið á móti miklum fjölda flóttafólks - en þó ekki jafn mörgum og Jórdan og Líbanon, sem hýsa gífurlega marga sýrlenska flóttamenn

Að lokum má nefna Mjanmar, sem kaus Aung San Suu Kyi til valda með yfirgnæfandi stuðningi, en um 77% kjósenda merktu við flokk hennar í atkvæði sínu. Landið hefur búið við gífurlegan óstöðugleika síðustu áratugina, og heimssamfélagið vonar að með lýðræðislegum umbótum verði hægt að bæta lífskjör íbúa Mjanmar.

Árið var sannarlega spennandi og margt sem atvikaðist, og er þó margt enn ótalið. Þrátt fyrir að það versta standi manni stundum ofar í huga er þess vert að minnast þess góða sem átti sér einnig stað.