Bygging kísilmálmverksmiðju PCC á Bakka við Húsavík komst í uppnám þegar Landvernd kærði lagningu Þeistareykjalínu og Kröflulínu en línurnar eiga að flytja rafmagn til verksmiðjunnar. Í kjölfar kærunnar stöðvaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála framkvæmdir við lagningu línanna og er bannið í gildi þar til nefndin hefur fjallað um kæru Landverndar.

Morgunblaðið greinir frá því dag að stjórnvöld hafi áhyggjur af málinu og að til greina komi að setja lög á deiluna. Einnig komi til greina að skerpa á ákvæðum nýlegra náttúruverndarlaga með það að markmiði að verkefni, sem komin voru á beinu brautina fyrir gildistöku laganna, verði ekki fyrir truflun.

Málið er á verksviði fleiri en eins ráðherra en samkvæmt heimildum Morgunblaðsins hefur Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra haft forystu um vinnuna.