Stjórnendur bresku verslunarkeðjunnar Iceland yfirfara nú bókhald fyrirtækisins til þess að liðka fyrir sölu þess en talið er að skilanefnd Landsbankans vilji selja fyrirtækið fyrir árslok. Frá þessu greinir Vísir og vitnar í frétt breska blaðsins Telegraph í morgun.

Færsla á um 53 milljörðum króna, úr dótturfélagi inn í móðurfélagið, er ein þeirra aðgerða sem gripið hefur verið til en auk þess hafa þrjú eignarhaldsfélög í eigu Iceland verið endurskipulögð. Þessum fjármunum á m.a. að veita til núverandi eigenda Iceland um 100 milljónir punda, rúmlega 18,7 milljarða króna, í formi arðs en skilanefnd Landsbankans á 66% hlut í bankanum og skilanefnd Glitnis 10% hlut.

Líklegasti kaupandi keðjunnar er talinn vera Malcolm Walker, forstjóri Iceland, en hann seldi Baugi fyrirtækið á sínum tíma og á í dag, ásamt öðrum stjórnendum, 24% hlut í félaginu.