Nokkuð líf hefur færst í skuldabréfamarkaðinn undanfarna daga eftir rólegheit síðustu vikna. Í Morgunkorni Íslandsbanka er bent á að velta með íbúðabréf í gær alls 13,3 mö.kr. Athygli vekur að ríflega helmingur veltunnar var vegna einna viðskipta með stysta íbúðabréfaflokkinn HFF14. Markaðsvirði þess flokks er einungis um 20 ma.kr. og var því velt um þriðjungi flokksins í þessum einu viðskiptum. Ávöxtunarkrafa flokksins hélst hins vegar óbreytt í 3,3%. Töluverð velta var einnig með lengri flokkana og lækkaði ávöxtunarkrafa þeirra um 1-3 punkta.

"Þróunin frá áramótum hefur einkennst af lítlu framboði og uppgreiðslum ríkistryggðra skuldabréfa. Á sama tíma hefur útgáfa skuldabréfa fyrirtækja og sveitarfélaga verið með allra líflegasta móti eða ríflega 30 ma.kr. Velta með íbúðabréf hefur dregist verulega saman og sveiflaðist ávöxtunarkrafan á mjög þröngu bili fram eftir febrúarmánuði. Síðustu vikuna hefur veltan tekið við sér á ný og er ávöxtunarkrafa íbúðabréfa á ný komin nokkuð undir 3,5%. Framundan er útboð hjá Íbúðalánasjóði að andvirði um 10 ma.kr. en ekki hefur verið tilkynnt um tímasetningu eða fyrirkomulag útboðsins að öðru leyti en því að það verði í þessum ársfjórðungi," segir í Morgunkorni Íslandsbanka.