Samtals var 708 kaupsamningum þinglýst við sýslumannsembættin í nýliðnum septembermánuði, að því kemur fram í frétt á vef Þjóðskrár Íslands. Þetta er nær sama fjöldi og var þinglýst í september á síðasta ári.

Heildarvelta nam 37,7 milljörðum króna í mánuðinum sem er tæplega 5% meira en í september í fyrra. Meðalupphæð á hvern kaupsamning var 53,3 milljónir króna samanborið við 51 milljón króna í sama mánuði á síðasta ári.

Umsvifin á markaðinum jukust mikið milli mánaðanna ágúst - september; kaupsamningum fjölgaði um tæp 35% og veltan jókst um 38%. Meðalupphæð á hvern kaupsamning í ágúst sl. var svipuð eða 52,1 milljón króna. Þjóðskrá áréttar í fréttinni að meðalupphæð kaupsamnings sé ekki hægt að túlka sem meðalverð eigna eða vísbendingu um verðþróun.

Viðskipti með eignir í fjölbýli voru 412 talsins síðastliðinn september, samtals að verðmæti 26,4 milljarða króna, sem 35% fleiri samningar og 38% meiri velta en í mánuðinum á undan. Viðskipti með eignir í sérbýli voru 120 talsins fyrir 9,1 milljarð króna sem er 21% fleiri samningar en í ágúst 2019 og 25% meiri velta. Viðskipti með aðrar eignir en íbúðarhúsnæði í nýliðnum september fjölgaði um 82% milli mánaða og voru 31 talsins en veltan jókst um 237% frá því í ágúst og var 2,2 milljarðar króna.

Þegar viðskiptin í nýliðnum september er borin saman við sama mánuði í fyrra sést að veltan í viðskiptum með fjölbýli jókst um tæp 11% og fjöldinn um 2,6%. Fjöldi viðskipta með sérbýli var sá hinn sami en veltan dregst saman um tæp 5%. Hins vegar voru viðskipti með eignir aðrar en íbúðarhúsnæði 30% færri og veltan um 17% minni.

fasteignir velta
fasteignir velta

Fjallað er um nýjar tölur um fasteignamarkaðinn í Hagsjá Landsbankans í dag og bent á að mikil viðskipti í síðasta mánuði hafi lyft meðaltali ársins 2019 töluvert. „Eftir tiltölulega hæga verðþróun frá því í mars varð verðhækkunin á höfuðborgarsvæðinu talsvert meiri í ágúst en var mánuðina á undan. Upplýsingar um verðþróunina í september koma í næstu viku og verður áhugavert að sjá hvort áframhald verður á þeirri þróun. Eins og margoft hefur verið tekið fram í umfjöllunum Hagfræðideildar er þó varasamt að taka mark á tölum fyrir einstaka mánuði í þessum efnum.

Öllum er ljóst að enn er verið að byggja mikið af íbúðarhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu og það gildir einnig um nágrannasveitarfélögin. Samkvæmt talningum Samtaka iðnaðarins, sem eru einu handbæru upplýsingarnar um byggingarstarfsemi hér á landi, voru um 200 fleiri íbúðir í byggingu nú í september en var fyrir ári síðan. Íbúðum á síðari byggingarstigum fjölgaði meira sem gæti bent til þess að kúfurinn væri að færast aftar í byggingaferlinu. Þá virðist sem innflutningur á mikilvægum byggingarefnum eins og járni og sementi hafi dregist saman að undanförnu sem bendir til þess að tekið sé að hægja á.

Sé litið á síðustu spá Samtaka iðnaðarins á grundvelli talninga má sjá að ekki verður um samdrátt að ræða hvað fullkláraðar íbúðir varðar á næstu árum. Þannig er reiknað með að u.þ.b. 2.300 íbúðir komi árlega inn á markaðinn á höfuðborgarsvæðinu á næstu árum. Spá SI hefur þó leitað niður á við sé litið til þess sem spáð var fyrir ári síðan.

Stórar tölur hafa verið nefndar um meinta eftirspurn eftir íbúðarhúsnæði á svæðinu. Jafnvel þótt um nokkurt ofmat á þörf geti verið að ræða er ljóst að á næstu árum mun koma töluvert framboð inn á markað sem ætti að koma verulega til móts við eftirspurnina.

Margoft hefur verið bent á það í Hagsjám að ekki sé verið að byggja þær tegundir íbúða sem fólk vill, þ.e. minni og einfaldari. Þá höfum við einnig bent á að eftirspurn eftir stærri og dýrari íbúðum í miðborginni hefur greinilega verið ofmetin þannig að sala á íbúðum á þessu svæði hefur gengið hægar en framkvæmdaaðilar gerðu ráð fyrir.

Í nýju riti Seðlabankans um fjármálastöðugleika er fjallað um þessa stöðu sem áhættuþátt. Þar er bent á að nýbyggingar hafi selst hægar en áður og er þar einkum bent á miðsvæði Reykjavíkur. Þannig telur Seðlabankinn að offramboð geti myndast á næstu mánuðum á ákveðnum svæðum,“ segir í Hagsjá Landsbankans.