Ekki er víst að vantrauststillaga Þórs Saari verði samþykkt á Alþingi þó svo að núverandi ríkisstjórn sé í raun minnihlutastjórn. Það veltur á því Guðmundur Steingrímsson, þingmaður utan flokka sem gengið hefur til liðs við Bjarta framtíð, styðji tillöguna eða ekki.

Eins og fram kom fyrir stundu hefur Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar, lagt fram vantrauststillögu á ríkisstjórnina. Í greinargerð með tillögunni segir að hún sé til komin vegna þess að ríkisstjórnin geti ekki „afgreitt frumvarp til stjórnarskipunarlaga byggt á þeim drögum sem samþykkt var að leggja til grundvallar nýrri stjórnarskrá...“

Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn eru samanlagt með 26 þingmenn í dag. Hreyfingin er með þrjá þingmenn auk þess sem Lilja Mósesdóttir og Atli Gíslason standa utan flokka. Samanlagt gera þetta 31 þingmenn þannig að einn þingmann þarf til viðbótar til að styðja tillöguna. Hér á vef Viðskiptablaðsins kom fram fyrir stundu að Sjálfstæðisflokkurinn muni styðja tillöguna en ekki hefur náðst í formann Framsóknarflokksins.

Samanlagður þingmannafjöldi stjórnarflokkanna, Samfylkingarinnar og Vinstri grænna, er nú 30 þingmenn. Rétt er þó að taka fram að sem stendur situr Anna Margrét Guðjónsdóttir (úr Samfylkingu) á þingi sem varamaður Róberts Marshall þannig að í raun nýtur ríkisstjórnin stuðnings 31 þingmanns. Það er því undir Guðmundi Steingrímssyni komið hvort að tillagan verður samþykkt eða ekki eins og sakir standa en hún verður ekki tekin fyrir fyrr en á þriðjudag í næstu viku verði hún tekin fyrir á annað borð.

Guðmundur var sem kunnugt er kjörinn fyrir hönd Framsóknarflokksins á þing en hann var áður varaþingmaður Samfylkingarinnar.