Davíð Helgason er einn af stofnendum hugbúnaðarfyrirtækisins Unity Technologies og starfaði sem forstjóri þess til haustsins 2014. Í dag situr hann í stjórn fyrirtækisins og tekur þátt í stefnumörkun þess. Davíð lýsir Unity í einföldu máli sem sköpunarvettvangi fyrir tölvuleikjahönnuði, líkt og Microsoft Word er fyrir rithöfunda. Í dag býr yfir ein og hálf millj­ ón aðila til tölvuleiki mánaðarlega með aðstoð Unity og meðal leikja sem byggja á hugbúnaðinum er sjálfur Pokémon Go.

Davíð fékk snemma áhuga á forritun eftir að hafa ungur flutt til Danmerkur ásamt móður sinni, Sigrúnu Davíðsdóttur blaðakonu. Hún hafði keypt sér PC tölvu en þar var ekki hægt að spila leiki, svo Davíð ákvað að hann þyrfti sjálfur að forrita sína eigin, 11 ára gamall. Sökkti hann sér í kjölfarið í forritun.

Reyndi fjórum sinnum við háskólann

„Ég var eiginlega bara fyrir framan tölvuna þar til í menntaskóla og eitthvað lengra. Eftir menntaskólann fór ég að vinna í vefdeild á auglýsingastofu og var þar að forrita, þá var vefgeirinn að blása upp,“ segir Davíð. Hann hafi hins vegar aldrei ætlað sér að verða forritari.

„Mig langaði í háskóla að læra eitthvað, pabbi minn er háskólakennari og á þessum tíma bar ég ekki virðingu fyrir forritun sem fagi. Ég datt fjórum sinnum út úr háskóla, ég datt út úr sálfræði, eðlisfræði, arabísku og tölvunarfræði. Ég fór alltaf að vinna aftur í forritun, sem mér fannst mjög gaman að stunda.“

Davíð fékk vinnu hjá ungum mönnum sem höfðu stofnað fyrirtæki í Kaupmannahöfn og áttaði sig á því að hann vildi byggja eitthvað sjálfur. Við tóku nokkrar misheppnaðar tilraunir til að stofna fyrirtæki en á endanum gengu tvö þeirra upp. Annað var ráðgjafafyrirtæki sem Davíð stýrði í tvö ár og þótti hundleið­ inlegt. Hitt lagði grunn að Unity.

Gamalt brauð og shawarma

„Ég átti gamlan vin úr menntaskóla sem langaði að gera tölvuleiki og við vorum mikið að tala um það langt fram eftir nóttu hvernig væri hægt að gera alls konar tölvuleiki. Við vorum að fikta og hann fann þýskan strák sem vildi vinna með okkur. Þeir byrjuðu aðeins að forrita á undan því ég var enn með ráðgjafafyrirtækið, en síðan erum við komnir þrír saman í kjallara í Kaupmannahöfn, Íslendingur, Dani og Þjóðverji, og ætlum að gera tölvuleiki,“ segir Davíð.

Þeir hafi hins vegar endað á því að einblína mun meira á tæknina á bak við leikina heldur en leikina sjálfa. Eftir að hafa forritað í nokkur ár ákváðu þeir 2004 að fyrirtækið yrði hugbúnaðarfyrirtæki fremur en tölvuleikjafyrirtæki. Hugbúnaðurinn sem þeir höfðu unnið í til að leggja grunn að leikjum yrði varan.

„Þarna vorum við ógeðslega blankir og ég búinn með allan minn sparnað úr gamla fyrirtækinu. Við leigðum okkur íbúð á Nørrebro og ég vann á kaffihúsi á kvöldin, ekki svo mikið út af laununum heldur matnum. Ég fékk mat þegar ég var að vinna og ég gat líka tekið með mér gamalt brauð heim, við vorum að borða það heima hjá okkur og lifðum einhvern veginn allir þrír á þessu brauði. Það eru minningarnar, brauð og shawarma rúllur, það var hægt að fá shawarma með chili fyrir 16 danskar og maður gat mokað eins mikið af chili á og maður þoldi,“ segir Davíð hlæjandi. Í þessum blankheitum hélt vinnan í kjallaranum áfram af fullum krafti.

Nánar er rætt við Davíð í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .