Elli- og Örorkulífeyrir hefur hækkað milli áranna 2016 og 2017 og hefur mesta hækkunin verið hjá tekjulægstu ellilífeyrisþegunum.

Í samantekt sem tekin var saman fyrir Félags- og jafnréttismálaráðherra vegna fyrirspurnar á Alþingi, kemur fram að þeir sem voru í tekjulægsta tíunda hluta ellilífeyrisþega fengu 25% hækkun og var hækkunin yfir fimmtungi hjá tekjulægri helmingi ellilífeyrisþega.

Ný lög tóku gildi um áramót

Um áramótin tóku gildi miklar breytingar á lögum um almannatryggingar, þar sem bótaflokkar voru sameinaðir og bætur voru hækkaðar og eru nú meðaltekjur ellilífeyrisþega um 354 þúsund krónur á mánuði og meðaltekjur öryrkja um 323 þúsund krónur.

Miðgildi ellilífeyris nam rétt rúmum 286 þúsund krónum en miðgildi örorkulífeyris nam 296.439 krónum, svo ljóst er að dreifing tekna ellilífeyrisþega er töluvert meiri eins og viðbúið er. Fyrir árið 2016 var meðaltal og miðgildi ellilífeyris hins vegar um 350 þúsund og 286 þúsund meðan meðaltal örorkulífeyris nam 325 þúsund krónum og miðgildið 281 þúsund.

Hækkun meðaltals ellilífeyris milli ára nam því 10 prósentum, meðan hækkun miðgildisins nam tæpum 22% sem gefur til kynna jafnari tekjudreifingu. Sama þróun sést í hækkunum örorkulífeyris þó hún sé mun minni, eða 2,5% hækkun meðaltalsins og 5,6% hækkun miðgildisins.