*

sunnudagur, 28. nóvember 2021
Innlent 25. nóvember 2011 18:42

Lífeyrir og bætur hafa hækkað um átta milljarða í ár

Grunnlífeyrir, aldurstengd örorkuuppbót, tekjutrygging og heimilisuppbót hækkuðu um 8,1% frá 1. júní 2011.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Vegna umræðu síðustu daga taldi velferðarráðuneytið ástæðu til að vekja athygli á að á þessu ári hafa útgjöld vegna bóta almannatrygginga og atvinnuleysisbóta verið aukin um rúma átta milljarða króna. Velferðarráðherra kynnti þessar hækkanir í byrjun júní í samræmi við yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um að lífeyrisþegar og atvinnuleitendur skyldu njóta hliðstæðra kjarabóta og samið var um á almennum vinnumarkaði í maí. Markmið þessara aðgerða var að bæta kjör þeirra sem minnst hafa og því voru hækkanirnar mestar hjá þeim tekjulægstu í hópi lífeyris- og bótaþega samkvæmt fréttatilkynningu frá velferðarráðuneytinu.

Grunnlífeyrir, aldurstengd örorkuuppbót, tekjutrygging og heimilisuppbót hækkuðu um 8,1% frá 1. júní 2011. Með því hækkaði lágmarkstrygging þeirra sem hafa engar tekjur aðrar en bætur almannatrygginga um 12.000 krónur. Eftir hækkunina voru lífeyrisþega sem býr einn tryggðar 196.000 krónur á mánuði en sá sem býr með öðrum 169.000 krónur á mánuði. Grunnatvinnuleysisbætur hækkuðu einnig um 12.000 krónur í tæpar 162.000 krónur á mánuði.

Auk framantalinna bótaflokka hækkuðu endurhæfingarlífeyrir, barnalífeyrir, uppbót á lífeyri og sérstök uppbót til framfærslu, vasapeningar og örorkustyrkur um 8,1%. Sama máli gegnir um mæðra- og feðralaun, umönnunargreiðslur, maka- og umönnunarbætur, barnalífeyri vegna menntunar, dánarbætur, foreldragreiðslur, fæðingarstyrkur og ættleiðingarstyrkir.