Frumvarp um breytingar á lögum um almannatryggingar hefur verið lagt fyrir Alþingi. Er markmið laganna að bregðast við hækkandi hlutfalli eldri borgara og lengri meðalævi.

Er lagt til aukins sveigjanleika á því hvenær fólk hætti störfum og hefji töku lífeyris og hvetja til áframhaldandi atvinnuþátttöku eftir vilja og getu. Verður lífeyristökualdurinn jafnframt hækkaður í skrefum á 24 ára tímabili um þrjú ár.

Getur unnið þangað til ert áttræður

Er lagt til að heimilt sé að fresta lífeyristöku lengur eða til 80 ára aldurs í stað 72 ára, þannig að það hafi áhrif til hækkunar á lífeyrisgreiðslur. Að sama skapi megi einnig flýta lífeyristöku með lækkun hans frá 65 ára aldri. Nú er lágmarkslífeyristökualdurinn 67 ár.

Jafnframt verður heimilt að taka hálfan ellilífeyri, hvort heldur sem frá lífeyrissjóði eða almannatryggingum og halda áfram að safna réttindum á hinn helminginn. Þó verður gildistöku þessarar heimildar frestað.

Greiðslur renni ekki lengur beint til heimilanna

Einnig er lagt til að koma á sérstökum verkefnum til að efla atvinnuþátttöku fólks með skerta starfsgetu, sem og tilkomu tilraunaverkefnis um breytingar á greiðsluþátttöku íbúa á dvalar- og hjúkrunarkerfum þar sem sú breyting yrði að íbúar haldi sínum greiðslum og greiði milliliðalaust fyrir framfærslu á heimilinum öfugt við að greiðslurnar renni beint til heimilanna.

Samkvæmt frumvarpinu er lagt til að sameina í einn bótaflokk, ellilífeyri, það sem nú skiptist í grunnlífeyri, tekjutryggingu og sérstaka framfærsluuppbót.

Heildarfjárhæð 212 þúsund með 45% skerðingarhlutfalli

Verður heildarfjárhæð að lokinni sameiningu 212.776 krónum á mánuði eða 2.553.312 krónum á ári en er það jafngilt framfærsluviðmiði þeirra sem búa með öðrum. Þó verður heimilisuppbót til þeirra sem búa einir áfram greidd, og mun hún nema 34.126 krónum á mánuði, eða 409.512 krónum á ári.

Hún verður skert um 7,5% af samanlögðum tekjum lífeyrisþegans frá öðrum en almannatryggingum. Aðrar skerðingar verða 45%, en lagt er til að frítekjumörk verði afnumin en skerðingin verður nú óháð tegund tekna, þó áfram sé gert ráð fyrir að greiðslur úr séreignasparnaði og fjárhagsaðstoð sveitarfélaga verði undanskilin tekjuskerðingum.