Góð afkoma sjóðsins á árinu 2013, jákvæð tryggingafræðileg staða og tillögur um breytingar á samþykktum sjóðsins verða meginefni ársfundar Lífeyrissjóðs verzlunarmanna, en fundurinn er haldinn í dag, 17. Mars, á Grand Hótel Reykjavík. Fundurinn hefst klukkan 18. Fjölmiðlar eru boðnir velkomnir á ársfundinn.

Ávöxtun Lífeyrissjóðs verzlunarmanna á síðasta ári var 10,2%. Hrein raunávöxtun var 6,3%, eftir því sem fram kemur í tilkynningu. Tekjur af fjárfestingum voru 42 milljarðar króna og eignir alls 454 milljarðar.

Tryggingafræðileg staða Lífeyrissjóðs verzlunarmanna í árslok 2013 er jákvæð sem nemur 0,9%. Þessi staða sýnir að sjóðurinn er vel í stakk búinn til að standa við skuldbindingar sínar um greiðslu lífeyris.

Lífeyrissjóður verzlunarmanna greiddi um níu milljarða króna í lífeyri á árinu 2013, um milljarði hærra en árið áður. Þetta er hækkun um 13%. Lífeyrisþegar voru um 12.200, 7,5% fleiri en árið 2012.