Íslenska lífeyriskerfið stenst með ágætum stefnumarkandi tilmæli Efnahags- og framfarastofnunarinnar, OECD, um uppbyggingu lífeyriskerfa. Er það niðurstaða nýrrar rannsóknar á nægjanleika lífeyrissparnaðar sem Fjármálaeftirlitið og Landssamtök lífeyrissjóða kynntu í dag. Samkvæmt rannsókninni er sjóðsöfnun mikil og fá lífeyrisþegar framtíðarinnar almennt meiri lífeyri heldur en nú er greiddur.

Ísland sker sig úr

Í niðurstöðum rannsóknarinnar segir að Íslands skeri sig úr að því leyti að nærri 77% af lífeyrisgreiðslum muni koma úr sjóðum sem hafi safnað eignum til greiðslu lífeyris. Í öðrum OECD-ríkjum sé hlutfallið á bilinu 5 til 46%. Hlutur gegnumstreymiskerfis, þar sem lífeyrir sé greiddur af skatttekjum ríkisins hverju sinni, verði því aðeins 23% hér á landi en fari til dæmis upp í 95% í Frakklandi.

Öryggisnet almannatrygginga

Þá kemur fram að lífeyrisgreiðslur Tryggingastofnunar séu mikilvægt öryggisnet fyrir þá sem fái lágan lífeyri úr hefðbundnum lífeyrissjóðum, t.d. vegna fjarveru af vinnumarkaði, lágra launa eða minni réttindaávinnslu á fyrstu tveimur áratugum almennu lífeyrissjóðanna. Öllum, sem uppfylli skilyrði um 40 ára búsetu á Íslandi, sé tryggður lífeyrir vel umfram fátæktarmörk.

Greiðslur munu fara hækkandi

Í niðurstöðunum segir að greiðslur lífeyrissjóðanna muni fara hækkandi á komandi áratugum og samanlagður lífeyrir frá sjóðunum og almannatryggingum verði að meðaltali um þriðjungi hærri en hjá þeim sem nýlega hófu töku lífeyris. Jafnframt muni hlutur viðbótarlífeyrissparnaðar fara vaxandi.

Veikleikar líka metnir

Rannsóknin beindist einnig að því að greina veikleika lífeyriskerfisins og þá einkum hvort einhverjir hópar þjóðfélagsins ættu á hættu að lenda undir viðmiði um nægan lífeyri. Niðurstaðan sýnir að þeir, sem hafa verið virkir á vinnumarkaði í 40-45 ár, sem er algengasta lengd starfsævi hér á landi, munu ná öllum viðmiðum um nægjanleika lífeyrissparnaðar.

Hins vegar er allnokkur hópur fólks sem nær ekki viðmiðum, fyrst og fremst vegna þess að það hefur ekki greitt nægilega lengi í lífeyrissjóð. Einnig hefur það áhrif að eldra fólkið, sem könnunin nær til, naut minni ávinnslu réttinda framan af starfsævinni.

Skýrsluna má lesa í heild sinni hér .