*

laugardagur, 30. maí 2020
Innlent 27. desember 2017 10:02

Lífeyrissjóðina skortir gagnsæi

Forstjóri Kauphallarinnar segir að lífeyrissjóðirnir ættu að vera með ítarlegri hagsmunaskrár, samskiptaskrár, fjárfestingarskrár og hluthafastefnur.

Snorri Páll Gunnarsson
Páll Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar.
Haraldur Guðjónsson

Páll Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar, segir að starfsemi lífeyrissjóðanna verði að vera gagnsærri til að efla traust og heilbrigði hlutabréfamarkaðarins.

Umsvif lífeyrissjóðanna hefur dregið úr virkri verðmyndun á hlutbréfamarkaði og bitnað á skilvirkni fjármálakerfisins. Hvernig væri hægt að draga úr áhrifum þeirra í fjármálageiranum?

„Það er óumdeilt að til lengri tíma litið munu lífeyrissjóðirnir færa sig til útlanda í meira mæli til að dreifa áhættu. Þeir geta ekki losað svo stóran hluta sparnaðar samfélagsins af innlendum mörkuðum til skamms tíma án þess að það valdi verðfalli. Það gerist í varfærnum skrefum og svo þarf eitthvað að koma á móti - til dæmis skattalegir hvatar eða breytingar á fyrirkomulagi séreignasparnaðar til að hvetja til almennari þátttöku annarra fjárfesta. Það myndi draga úr áhrifum lífeyrissjóðanna og stuðla að virkari verðmyndun.

Lífeyrissjóðirnir hafa að mörgu leyti staðið sig ágætlega í uppbyggingu íslensks atvinnulífs á undanförnum árum og skilað góðri ávöxtun. Hins vegar tel ég að starfsemi lífeyrissjóðanna mætti almennt vera gagnsærri. Þeir fara með fé almennings, eru umfangsmiklir, hafa mikið fjármagn og mikil áhrif. Það er því hægt að gera allt aðrar kröfur til þeirra heldur en annarra fjárfesta.

Ég tel að lífeyrissjóðirnir ættu að vera með nákvæma skrá fyrir hvert einasta fyrirtæki sem þeir fjárfesta í - skrá yfir öll hagsmunatengsl framkvæmdastjóra og starfsmanna við viðkomandi félög, við hverja er talað og um hvað, hvernig farið er með atkvæðisrétt og svo framvegis. Svo mættu þeir flestir vera með ákveðnari hluthafastefnu og skýra betur hvaða ráðstöfunum þeir beita til að koma í veg fyrir samkeppnishamlandi áhrif. Við erum oft að sjá þrjá til fjóra lífeyrissjóði með 20-40% eignarhlut í fyrirtækjum sem eru að keppa sín á milli, en um 40% af markaðsvirði skráðra hlutabréfa er í þeirra höndum. Ákvæði um framangreint væri til dæmis hægt að setja í lög. Það myndi efla traust á markaðnum og heilbrigði markaðarins.“

Rýmka þarf heimildir til verðbréfalána

Páll segir að rýmka þurfi heimildir til verðbréfalána til að skapa virkari forsendur fyrir skortsölu á hlutabréfamarkaði og bæta verðmyndun.

„Það er skortur á skortsölu og getu til verðbréfalána á hlutabréfamarkaðnum. Skortsala er ekki bönnuð hér á landi en hún er takmörkuð. Það stafar meðal annars af því að lífeyrissjóðir mega ekki lána verðbréf og verðbréfasjóðum eru settar hömlur um slíkar lánveitingar. Við metum það svo að það þurfi að rýmka þessar heimildir – gegn því að lánin séu veitt gegn öruggum tryggingum – til að skapa forsendur fyrir virkari möguleikum á skortsölu. Það væri „win-win“ fyrir lífeyrissjóðina, sjóðsfélaga og verðbréfamarkaðinn. Lífeyrissjóðirnir fengju auknar tekjur og sjóðsfélagar fengju aukin gæði til framtíðar litið. Þá myndi þetta stuðla að virkari verðmyndun og meiri skoðanaskiptum á markaði.“

Nánar er fjallað um málið í bókinni 300 stærstu. Hægt er að kaupa eintak af bókinni hér.