Hópur lífeyrissjóða sem tengdust fjárfestahópnum Búvöllum og áttu í gegnum félagið 44% hlut í Högum hafa ákveðið að slíta sig frá honum. Lífeyrissjóðirnir munu eftirleiðis eiga eignahluti sína í Högum beint án tilkomu annarra hluthafa.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Högum.

Hlutafjáreign Búvalla í Högum fer við þetta úr 44% í 20,9% Á meðal fjárfesta sem eftir standa í Búvöllum eru þeir Árni Hauksson og Hallbjörn Karlsson, sem eiga hlut sinn í gegnum félagið Hagamel, Capital, sem er í eigu Sigurbjörns Þorkelssonar og Tryggingamiðstöðvarinnar, Íslenski athafnasjóðurinn sem heyrir undir Stefni, Miranda, félag Berglindar Jónsdóttur, og Draupnir, fjárfestingarfélag Jóns Diðriks Jónssonar.

Legið hefur fyrir frá því fjárfestahópurinn eignaðist hlut í Högum að hópurinn myndi skiptast upp og eignast hluti sína beint í fyrirtækinu fremur en í gegnum óskráð félag.

Skráning Haga á hlutabréfamarkað mun vera á síðustu metrunum en stutt er síðan greint var frá því að félagið verði skráð í Kauphöll í næsta mánuði.