Lífeyrissjóðir hafa fært niður hlutafé sitt í Bakkastakki, fjárfestingafélagi stofnað utan um fjárfestingu þeirra og Íslandsbanka í kísilveri PCC á Bakka við Húsavík, að öllu eða mestu leyti.

Samkvæmt ársreikningum fjögurra lífeyrissjóða sem samanlagt fara með helmingshlut í Bakkastakki hafa þeir fært virði ríflega 1,4 milljarða hlutafjár niður um 90% og meta virði hlutafjárins nú á um 145 milljónir króna.

Sjá einnig: Lífeyrissjóðir færa niður hlutafé í PCC

Bakkastakkur á 13,5% í kísilveri PCC á Bakka á móti 86,5% hlut þýska félagsins PCC SE. Bakkastakkur lagði PCC til 18 milljónir dollara í hlutafé árið 2015, um 2,6 milljarða króna á núvirði, og lánaði félaginu 62 milljónir dollara, um 9 milljarða króna á núvirði með útgáfu skuldabréfs.

Gefa eftir af skuldabréfi

Bilanir hafa einkennt rekstur kísilversins frá því það var gangsett í apríl árið 2018. Ítrekað hefur þurft að stöðva framleiðslu og hægt hefur gengið að koma framleiðslunni í afköst. Því til viðbótar var kísilverð í sögulegum lægðum framan af þessum vetri.

Vegna rekstrarerfiðleikanna lagði þýska félagið PCC SE, kísilverinu á Bakka nýverið til 40 milljónir dollara, um 5,8 milljarða króna á núvirði, í formi lánsfjár. Á móti samþykktu hluthafar Bakkastakks skilmálabreytingar skuldabréfsins með því að gefa eftir vaxtagreiðslur og fresta afborgunum lána.

Birta færir niður hlut sinn að fullu

Birta lífeyrissjóður færði niður 10,9% hlut sinn í Bakkastakki að fullu. Birta lagði Bakkastakki til ríflega 300 milljónir króna samkvæmt ársreikningi lífeyrissjóðsins. Gildi lífeyrissjóður, sem á 19,4% í Bakkastakki, færði niður um 558 milljóna króna fjárfestingu, sína í félaginu niður um 90% og metur hana á 55,8 milljónir króna. Þá hefur Stapi lífeyrissjóður fært niður hlut 14,8% hlut sinn í Bakkastakki, um 86%. Kostnaðarverð fjárfestingarinnar nam 426 milljónum króna en var metinn á 58 milljónir króna í um síðustu áramót samkvæmt ársreikningi Stapa. Almenni lífeyrissjóðurinn, á 4,9% í Bakkastakki, hefur fært niður 134 milljóna fjárfestingu um 76% og bókfærði virði hennar á 32 milljónir króna í lok síðasta árs. Þá færði Frjálsi lífeyrissjóðurinn niður hlutafé sitt í Bakkastakki og skuldabréfalánið til PCC um 46% samkvæmt frétt Fréttablaðsins.

Íslandsbanki, sem á tæplega fimmtungshlut í Bakkastakki, sagði í svari við fyrirspurn Viðskiptablaðiðsins frá því í febrúar, að ekki yrði gefið út hvaða áhrif fjárfestingin á Bakka hefði á afkomu bankans. Hins vegar hefði verið tekið fjárhagslegar endurskipulagningar kísilversins í uppgjöri bankans fyrir árið 2019.

PCC sér batamerki á framleiðslunni

Kísilver PCC á Bakka var gangsett í apríl 2018 en var ekki formlega afhent PCC SE fyrr en 30. október 2019. Áætlað er að það hafi kostað um 300 milljónir dollara í byggingu, ríflega 40 milljarða króna á núvirði. PCC SE bókfært tap á fjórða ársfjórðungi í kjölfar afhendingar kísilversins, samkvæmt nýjasta uppgjöri félagsins sem gefið var út í mars.

Því til viðbótar stöðvaðist framleiðsla kísilversins um hríð í desember eftir að óveðrið sem gekk yfir landið olli rafmagnsleysi. PCC SE segir að aðgerðir til að auka skilvirkni kísilversins séu farnar að skila árangri sem muni draga úr rekstrarkostnaði þess. Þá hafi kísilverð tekið að hækka á ný sem skila muni sér í bættri afkomu.

PCC SE er í eigu hins þýsk-pólska Waldemar Preussnerer. Hjá fyrirtækinu starfa um 3.500 manns í 18 löndum og velti félagið 768 milljónum evra á síðasta ári, sem samsvarar um 120 milljörðum króna en félagið tapaði 1,9 milljónum evra fyrir skatta, um 300 milljónum króna.