Lífeyrissjóðir landsins hækkuðu allir vægi hlutabréfa í fjárfestingarstefnum samtryggingadeilda fyrir árið 2022. Tíu stærstu sjóðirnir hækkuðu vægi innlendra hlutabréfa og flestir hækkuðu einnig vægi erlendra bréfa.

Sjóðirnir hafa lagt aukna áherslu á hlutabréf síðustu ár og sem dæmi hefur hlutfall hlutabréfa í stefnu aukist úr 49% í 60% á þremur árum hjá LIVE.

Á móti lækkuðu sjóðirnir vægi skuldabréfa og þá einkum skuldabréfa með ríkisábyrgð. Hlutfall þeirra í fjárfestingastefnum hefur farið lækkandi á síðustu árum, m.a. vegna lægra vaxtastigs. Til merkis um það má benda á að A-deild LSR hefur minnkað vægi skuldabréfa með ríkisábyrgð í stefnu úr 28% árið 2019 í 15% árið 2022. Þá lækkuðu margir sjóðir vægi sjóðfélagalána frá fyrra ári.

Aukið vægi hlutabréfa í eignasöfnum lífeyrissjóða getur haft í för með sér sveiflukenndari ávöxtun sjóðanna á næstu árum, ekki síst í kjölfar mikillar hækkunar á eignaverði á heimsmörkuðum. Hins vegar má benda á að vextir á skuldabréfamörkuðum eru enn sögulega lágir og skuldabréf gefa almennt af sér lága eða neikvæða ávöxtun þegar vextir fara hækkandi vegna gengistaps sem þá myndast.

„Vaxtaþróun undanfarinna ára og miðað við forsendur um að engar sérstakar breytingar verði þar á mun þýða að eignaflokkar, eins og t.d. ríkisskuldabréf, sem hafa verið stoð þar sem saman fór öryggi og einhver lágmarksávöxtun, munu ekki uppfylla það hlutverk í sama mæli og áður,“ segir í nýrri fjárfestingarstefnu Birtu lífeyrissjóðs.

Þar segir jafnframt að vextir á skuldabréfamörkuðum séu enn mjög lágir og verðbólga vaxandi víðast hvar. Því sé uppskera á vaxta- og skuldabréfamarkaði „afar rýr eins og er í pottinn búið“.

Lífeyrissjóðurinn Stapi flokkar eignir samtryggingasjóðs annars vegar í tryggingaeignir, sem eru skuldabréf, innlán og fasteignir, og hins vegar ávöxtunareignir, sem samanstanda af hlutabréfum og sérhæfðum erlendum fjárfestingum. Á síðasta ári fóru ávöxtunareignir, sem lýst er sem áhættusamari eignum, yfir 50% af heildareignum sjóðsins í fyrsta sinn frá stofnun árið 2006.

Mynd tekin úr fjárfestingarstefnu Stapa fyrir árið 2022.

Umfjöllun hér að ofan nær til allra sjóða sem hafa birt opinberlega fjárfestingarstefnu fyrir árið 2022. Einungis örfáir minni sjóðir hafa ekki birt fjárfestingastefnu ársins 2022 á vef sínum.