Hlutur lífeyrissjóða í hlutabréfasjóðum hefur aukist talsvert á síðastliðnum rúmum tveimur árum. Hlutur þeirra var 34% í september árið 2011 en var í mars 45,1%. Heimili landsins eru næst stærstu eigendur hlutabréfasjóða landsins með 23,8% eignarhlut. Hlutdeild þeirra hefur allt frá fyrstu mælingum legið nærri 25% og hefur því minnkað nokkuð. Lægst var hlutdeildin í febrúar árið 2012 þegar hún fór niður í 21,4%.

Greining Íslandsbanka fjallar um málið í Morgunkorni sínu í dag.

Í Morgunkorninu segir m.a. að á fyrstu þremur mánuðum þessa árs nam lækkun hlutafjárverðs, mælt með K-90 vísitölu Greiningar Íslandsbanka, 5,9%. Á sama tíma námu útgefin hlutdeildarskírteini í hlutabréfasjóðum umfram innleyst skírteini 2.831 samkvæmt tölum Seðlabankans.

Greining Íslandsbanka segir:

„Ákveðið samband er milli hreyfinga hlutabréfamarkaða innan mánaðar og nettó útgáfu hlutdeildarskírteina. Í janúar 2013 hækkuðu til dæmis markaðir töluvert og var þá nettó útgáfa umtalsverð. Í febrúarmánuði síðastliðnum lækkuðu markaðir töluvert og var þá nettó útgáfa neikvæð. Útgáfa og innlausn hlutdeildarskírteina hefur áhrif á eftirspurn með beinum hætti og því erfitt að draga beina ályktun um hvort lækkun markaða ýti undir innlausnir eða hvort lækkun markaða tengist innlausnum. Eins og sjá má var töluvert um útgáfur skírteina umfram innlausnir í apríl í fyrra en þá hækkuðu markaðir óverulega. Á þeim tíma var útboð TM og VÍS og þeir „nýju“ fjármunir sem leituðu inn á hlutabréfamarkaðinn í gegnum aukna útgáfu hlutdeildarskírteina hafa að öllum líkindum leitað í útboðin á tryggingarfélögunum tveimur í stað þess að fara inn á hinn skráða markað. Í öllu falla gefa útgáfur og innlausnir í hlutabréfasjóði ákveðna mynd af þróun eftirspurnar á hlutabréfamarkaði.“