Samlagshlutafélagið Sunnuvellir sem er að stærstum hluta í eigu íslenskra lífeyrissjóða hefur keypt hlutafé fyrir 1.350 milljónir króna vegna uppbyggingar sólarkísilvers sem Silicor Materials vill reisa hér á landi að því er kemur fram í Fréttablaðinu og Vísi í dag .

Silicor Materials Holding hefur ekki tryggt sér raforku, lóð eða fjármögnun sem upp á vantar en uppsafnað tap fyrirtækisins nam 2,7 milljörðum króna í árslok 2016.

Sunnuvellir eru í eigu fjögurra lífeyrissjóða auk Íslandsbanka og Sjóvar. Lífeyrissjóðirnir fjórir eru Lífeyrissjóður verslunarmanna, Birta lífeyrissjóður, Lífeyrissjóður Vestmannaeyja og Festa lífeyrissjóður sem samtals eiga um 80% í félaginu.

Silicor Materials féll í lok ágúst frá samningum við Faxaflóahafnir um lóð og hafnaraðstöðu á Grundartanga þar sem bandaríska fyrirtækið vill enn byggja sólarkísilverksmiðju. Kom þá fram að fyrirtækinu hefði ekki tekist að loka fjármögnun verkefnisins, sem metið var á 900 milljónir Bandaríkjadala eða um 95 milljarða króna, og að það væri í endurskoðun og hægagangi.

Aðalfundur Silicor Materials Holding var haldinn 23. ágúst eða degi áður en samningunum við Faxaflóahafnir var sagt upp bréfleiðis. Á fundinum var kynnt tap upp á 1.256 milljónir króna á árinu 2016. Samkvæmt ársreikningi félagsins veltur áframhaldandi rekstur og þróun verkefnisins á fjármögnun frá hluthöfum og að án hennar sé framtíð þess óviss.

Sunnuvellir er stærsti einstaki eigandi Silicor Materials Holding með 32 prósenta hlut. Félagið tók þátt í fyrri hluta fjármögnunar kísilversins í ágúst 2015 og skráði sig þá fyrir hlutafé upp á 40 milljónir dollara eða jafnvirði 4,2 milljarða króna. Eins og áður segir hafa Sunnuvellir greitt um 1.350 milljónir en sjóðirnir fjórir eiga alls 80 prósent í félaginu og hafa því reitt fram rúman milljarð. Aðrar hlutafjáraukningar eru háðar ákveðnum skilyrðum um framgang verkefnisins.

Eigið fé félagsins var neikvætt um rétt rúman milljarð króna í árslok 2016 en bréfin í Silicor Materials hafa ekki verið afskriuð og eru bókfærð á 963,7 milljónir.