Lífeyrissjóðir eiga a.m.k. 37,44% hlutafjár íslenskra félaga sem skráð eru á Aðallista Kauphallarinnar. Ljóst er að eignarhlutur þeirra hefur aukist nokkuð frá í byrjun síðasta árs þegar lífeyrissjóðirnir áttu 29% af heildarvirði skráðra hlutabréfa. Fram kemur í dag í Markaðnum, fylgiblaði Fréttablaðsins um viðskipti og efnahagsmál, að ekki sé útilokað að hlutur lífeyrissjóða sé stærri þar sem samantekt á helstu hluthöfum nái aðeins til 20 stærstu eigendur hvers félags. Hlutur einhverra lífeyrissjóða geti því verið undir því marki.

Lífeyrissjóðirnir eiga mest í N1 eða 60,4% hlut. Þar á eftir kemur eignahlutur í Icelandair Group upp á 46,8% og Vodafone upp á 45,1 prósent. Lífeyrissjóðirnir eiga minnst í VÍS eða 17,4% hlut.