Í haust verður á Alþingi lagt fram frumvarp til breytinga á lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Samkvæmt frumvarpinu verður lífeyrissjóðum gert mögulegt að flokka hlutabréf á First North markaði sem skráð en ekki óskráð líkt og verið hefur. Kauphöllin telur þetta góð tíðindi fyrir fjárfestasamfélagið og smærri fyrirtæki þar sem First North yrði aðgengilegri vettvangur fyrir fyrirtæki í vexti verði frumvarpið að lögum.

First North er norrænn hliðarmarkaður fyrir hlutabréfaviðskipti. Tilgangur markaðarins er að veita smærri og meðalstórumfyrirtækjum kost á að vera á markaði þar sem þau eiga ef til vill ekki möguleika á skráningu á aðalmarkað Norrænu kauphallarinnar. Markaðurinn er starfræktur af kauphöllunum innan Norrænu kauphallarinnar og hefur aðra lagalega stöðu en skipulegur verðbréfamarkaður.

Nú er 161 fyrirtæki skráð á First North og eru flest þeirra skráð á sænska markaðinn eða 139 fyrirtæki. Íslensk fyrirtæki á markaðnum eru þrjú talsins en það eru Century Aluminum, Hampiðjan og Sláturfélag Suðurlands. Nýskráningum á markaðinn fer hins vegar hratt fjölgandi, aðallega í Svíþjóð. Nýskráningar á síðasta ári voru 18 talsins en það sem af er þessu ári hafa 29 fyrirtæki verið skráð á markaðinn. Markaðurinn fer því ört vaxandi með sífellt fleiri fjárfestingarmöguleikum í boði fyrir fjárfesta.

Páll Harðarson, forstjóri Kauphallar Íslands, segir frumvarpið á Alþingi geta skipt miklu máli fyrir fyrirtæki sem gætu haft gagn af því að leita inn á markaðinn til fjármögnunar en ekki talið það mögulegt hingað til. „Kauphöllin hefur talað fyrir þessum breytingum og verið í samstarfi við efnahags- og viðskiptanefnd við gerð þessa frumvarps og við höfum mikla trú á því að þetta, ásamt fleiru, gæti styrkt aðgengi margra fyrirtækja að fjármagni. Það er fjölbreytt flóra fyrirtækja sem gæti nýtt sér þetta.“

Nánar er fjallað um málið í Kauphallarblaðinu sem fylgdi Viðskiptablaðinu 11. september 2014. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .