Fjórtán íslenskir lífeyrissjóðir gætu eignast allt að 50% hlut í HS Orku gangi áætlanir þeirra eftir um að koma inn í eigendahóp orkufyrirtækisins. Sjóðirnir hafa skrifað undir rammasamkomulag um skilmála þá sem eiga að gilda um kaup þeirra í HS Orku.

Gangi kaupin eftir munu sjóðirnir kaupa 25% hlut í HS Orku strax á um 8 milljarða króna. Þeir eiga síðan rétt á að auka hlut sinn upp í 33,4% fyrir 4,7 milljarða króna með hlutafjáraukningu fyrir 10. febrúar 2012. Til viðbótar er sjóðunum tryggður forkaupsréttur að allri hlutafjáraukningu í framtíðinni þar til eignarhlutur þeirra er orðinn 50%.

Andstaða við eignarhald

Stærstu lífeyrissjóðir landsins skipuðu þriggja manna nefnd í lok janúar til að fara yfir hvort þeir ættu að kaupa að minnsta kosti 25% hlut í HS Orku. Ákveðið var að ráðast í þessa vinnu eftir að Magma Energy Sweden, eigandi 98,53% hlutar í fyrirtækinu, bauðst til að selja sjóðunum fjórðungshlut í því á sama verði og Magma hafði keypt hlutinn á. Ástæðan var meðal annars sú mikla andstaða sem var á meðal ráðherra Vinstri grænna við erlent eignarhald á íslensku orkufyrirtæki.

Nefndin, undir formennsku Ólafs Sigurðssonar, framkvæmdastjóra Stafa lífeyrissjóðs, fékk ráðgjafarfyrirtækið Arctica Finance til að ráðast í ítarlega verðmatsvinnu á HS Orku. Arctica þekkir vel til fyrirtækisins eftir að hafa haft umsjón með sölu á 32% hlut Orkuveitu Reykjavíkur (OR) til Magma á árinu 2009.

Ákvörðun í maí

Á mánudag var síðan tilkynnt um að rammasamkomulag hefði náðst um kaup sjóðanna á að minnsta kosti fjórðungshlut í HS Orku.

Ólafur segir endanlega ákvörðun þó ekki liggja fyrir fyrr en líða tekur á maímánuð þegar búið verði að framkvæma lagalega, tæknilega og fjármálalega áreiðanleikakönnum. Búið er að semja við PwC um að framkvæma þá fjármálalegu könnun, LEX um að taka út lögfræðilega hlutann og Reykjavík Geothermal um að kanna tæknilegu þættina. Síðastnefnda fyrirtækinu stýrir Guðmundur Þóroddsson, fyrrverandi forstjóra OR og REI.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kom út í dag, miðvikudag. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.