Eigendur Framtakssjóðs Íslands höfðu lítinn ábata af því þegar sjóðurinn seldi 10% hlut í Icelandair Group haustið 2011 þar sem kaupendur voru lífeyrissjóðir. Þetta segir Vilhjálmur Bjarnason, lektor við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands og framkvæmdastjóri Samtaka fjárfesta. Sextán lífeyrissjóðir eru eigendur Framtakssjóðsins auk Landsbankans, sem á 27,6% hlut í sjóðnum. Nokkrir lífeyrissjóðir í eigendahópi Framtakssjóðsins eru á meðal helstu hluthafa Icelandair Group.

Vilhjálmur segir í samtali við Fréttatímann Icelandair Group „aðeins“ hafa greitt út 800 milljónir í arð. Það sé of lítið. Ætli lífeyrissjóðirnir að hagnast á Icelandair Group verði aðrir að kaupa bréfin en þeir sjálfir og arðgreiðslur að hækka.

Í Fréttatímanum er fjallað um gengishækkun hlutabréfa Icelandair Group frá því félagið gekk í gegnum fjárhagslega endurskipulagningu og þegar Framtakssjóðurinn keypti 30% hlut í því fyrir rúma 3 milljarða króna sumarið 2010.

Framtakssjóðurinn seldi í fyrrahaust 10% hlut fyrir um 2,7 milljarða á meðalverðinu 5,423 krónur á hlut og nam hagnaðurinn 1,5 milljörðum króna. Verðmæti þessa 10% hlutar er 800 milljónum króna verðmætari nú en þegar hann var seldur, samkvæmt útreikningum Fréttatímans.

Bent er á að ef sjóðurinn seldi öll bréf sín í Icelandair Group í dag þá myndi hagnaður hans nema tæpum 4,3 milljörðum króna. Sjóðurinn er stærsti hluthafi félagsins með 19% hlut. Markaðsverðmæti hlutarins nemur tæpum 6,7 milljörðum króna miðað við gengi bréfa félagsins í gær, 7,07 krónur á hlut.