Langstærsta leigufélag landsins, Heimavellir er nú að rúmum 15% hluta í eigu fjögurra íslenskra lífeyrissjóða, en hlutafé félagsins nemur sex milljörðum króna. Félagið á um 1.200 íbúðir um landið allt, en stóran hluta þeirra keypti félagið af Íbúðalánasjóði.

Lífeyrissjóðir komu inn í eigendahóp félagsins í vor ásamt tryggingafélögunum VÍS og TM og Kviku fjárfestingarbanka.

Um miðjan næsta mánuð bætist svo fjárfestingarfélag hjónanna Finns Reyrs Stefánssonar og Steinunnar Jónsdóttur og Tómasar Kristjánssonar viðskiptafélaga þeirra inn í hluthafahópinn, að því er fram kemur í frétt DV .

Þurftu að skila tæpum helmingi íbúða

Það gerist þegar sameining Heimavalla og leigufélagsins Ásabyggðar á Ásbrú í Reykjanesbæ gengur í gegn, en í kjölfar þess mun það eiga um tvö þúsund íbúðir.

Það félag hét áður Háskólavellir ehf. en það samdi árið 2008 við Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar, Kadeco, um kaup á 1.500 íbúðum auk lóða og atvinnuhúsnæðis á varnarsvæðinu gamla við völlinn. Félagið þurfti þó að skila 732 íbúðum aftur vegna vanefna.

Stálskip stærsti einstaki eigandinn

Lífeyrissjóðirnir sem um er rætt eru Söfnunarsjóður lífeyrisréttinda, Sameinaði lífeyrissjóðurinn, Festa-lífeyrissjóður og Lífsverk, en á þeim tíma sem þeir fóru inn var hlutafé félagsins aukið um 2,4 milljarða króna en ekki fæst uppgefið hversu mikið fjármagn þeir lögðu inn í félagið á tímabilinu.

Stærsti einstaki eigandinn í félaginu er fjölskyldufyrirtækið Stálskip með 14,3%, en það er í eigu hjónanna Guðrúnar Lárusdóttur og Ágústs Sigurðssonar. Næst á eftir eru Sjóvá, Magnús Pálmi Örnólfsson í gegnum félag sitt Túnfljót ehf. og svo Einkahlutafélagið Brimgarðar sem er að meirihluta í eigu matlverka félagsins Coldrock Investment Limited.