Nokkrir bandarískir lífeyrissjóðir hafa höfðað mál gegn fjármálarisanum Blackrock, sem er stærsta eignastýringarfyrirtæki heims. Fullyrða sjóðirnir að Blackrock hafi með kerfisbundnum hætti rænt sjóðina með því að hanna þóknanakerfið í því skyni.

Segir í stefnunni að þóknanakerfið hafi verið með þeim hætti að dótturfyrirtæki Blackrock hafi haldið eftir 40% af þóknunum sem fengust með því að lána hlutabréf, t.d. til skortsölu.

Í frétt Financial Times segir að þóknanatekjur vegna hlutabréfalána hafi numið 397 milljónum dala í fyrra. Þar er einnig rætt við sérfræðinga sem halda því fram að mun algengara sé að eignastýringarfyrirtæki haldi eftir 20% af þóknunum sem þessum og því sé Blackrock í sérflokki hvað varðar þóknanir.