„Þessi hlutafjáraukning er ekki eyrnamerkt neinu ákveðnu verkefni heldur fer hún í að efla frekari sókn félagsins,“ segir Jóhannes Hauksson, framkvæmdastjóri framtakssjóðsins Akurs, í samtali við Fréttablaðið. Þar kemur fram að sjóðurinn hafi keypt 30% hlut í Fáfni Offshore og sé nú stærsti einstaki hluthafi félagsins. Fáfnir sérhæfir sig í þjónustu við olíu- og gasborpalla.

Með kaupunum var hlutafé aukið um 1.260 milljónir króna hjá fyrirtækinu. Akur er í eigu þrettán lífeyrissjóða, Íslandsbanka og Vís, en Lífeyrissjóður verslunarmanna er stærsti hluthafinn með 19,9% hlut.

„Við tókum endanlega ákvörðun í ágúst, með ákveðnum fyrirvörum, en kaupin gengu í gegn í nóvember. Við erum því nýkomnir um borð en okkur þykir þetta spennandi verkefni því Fáfnir starfar í bransa sem er þróaður á alþjóðavísu en er fyrsta fyrirtæki sinnar tegundar hér á Íslandi.“