Framkvæmdarstjóri Landssamtaka lífeyrissjóða krefst þess að Seðlabanki Íslands svari fyrirspurn hans frá því í mars um hvort tvö útlensk tryggingafélög, sem starfa hér á landi, hafi fengið undanþágu frá gjaldeyrishöftunum. Reynist svo vera, sé það brot á lögum um jafnræði.

Fréttastofa RÚV greinir frá. Í fréttinni segir að fjöldi fólks hafi sagt upp samningum um viðbótarlífeyrissparnað hjá íslenskum lífeyrissjóður og flutt viðskipti sín til útlenskra tryggingafélaga sem starfa hér á landi. Í bréfi Landssamtaka lífeyrissjóða til Seðlabanka Íslands er bankinn krafinn svara um það hvort tryggingarfélögin Allianz á Íslandi og Sparnaður/Bayern líf, og hugsanlega fleiri, fái undanþágu frá gjaldeyrishöftunum.

Í bréfinu er því haldið fram að tryggingarfélögin hafi boðið landsmönnum þjónustu sína við að fjárfesta viðbótalífeyrissparnað í útlöndum. Íslenskir lífeyrissjóðir geti ekki keppt við þetta, þeim sé það óheimilt vegna haftanna. Reynist þetta rétt sé með þessu brotið gegn meginreglum laga um jafnræði auk þess sem þetta bryti gegn ákvæðum samkeppnislaga.