Efnahags- og viðskiptanefnd hefur lagt það til að heimild lífeyrissjóða til að eiga í félögum, fyrirtækjum, hlutdeildarskírteinum eða sjóðum verði hækkuð úr fimmtán prósentum í tuttugu prósent. Þetta kemur fram í áliti nefndarinnar um frumvarp fjármálaráðherra um breytingu á lögum um lífeyrissjóði.

Þá leggst nefndin gegn því að lífeyrissjóðum verði heimilað að lána verðbréf, m.a. til að þau séu notuð í skortsölu. Segir í álitinu að þótt lífeyrissjóðir geti vissulega aukið tekjur sínar af verðbréfum með þóknunum fyrir lán á bréfunum taki þeir á móti á sig áhættu af því að lántakinn skili ekki verðbréfunum og framlögð trygging dugi ekki til að bæta tjónið. Nefndin telur þátttöku í slíkum viðskiptum ekki samræmast hlutverki lífeyrissjóða sem langtímafjárfesta.

Auk þess telur nefndin óheppilegt að greiða fyrir skortsölu verðbréfa meðan ekki hefur verið mótaður skýrari lagarammi um slík viðskipti.