Íslenskum lífeyrissjóðum stóð til boða að fá aukaafslátt af skuldum sínum við slitastjórnir gömlu íslensku bankanna gegn því að greiða með erlendum eignum sjóðanna. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins er afsláttur sjóðanna allt að 20%.

Arnar Sigurmundsson, samningamaður og fyrrverandi stjórnarformaður Landssamtaka Lífeyrissjóða, staðfesti í samtali við Viðskiptablaðið að í einhverjum tilvikum hafi lífeyrissjóðir látið af hendi erlendar eignir vegna uppgjörsins við slitastjórn Kaupþings.

Á föstudag í síðustu viku var tilkynnt um að 17 lífeyrissjóðir ásamt undirsjóðum þeirra hafi náð samkomulagi við slitastjórn Kaupþings um uppgjör á afleiðusamningum sem gerðir voru fyrir bankahrunið haustið 2008. Með samkomulaginu er deilum sjóðanna við slitastjórnirnar lokið. Lífeyrissjóður verslunarmanna deilir þó enn við slitastjórn Glitnis fyrir dómstólum.

Fyrirkomulagið þykir þjóna hagsmunum slitastjórnanna best þar sem meirihluti kröfuhafa eru erlendir aðilar. Þeir hafa lagt mikla áherslu á að fá erlendar eignir slitastjórnanna greiddar út sem hluta af nauðasamningum án þess að slíkt hafi verið samþykkt.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu sem kom út í morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið í heild hér að ofan undir liðnum tölublöð.