Lífeyrissjóðir landsins fengu úthlutað að minnsta kosti um fjórðungi af þeim hlutum sem stóðu til boða í hlutafjárútboði Íslandsbanka. Allir þeir lífeyrissjóðir sem svöruðu fyrirspurn Viðskiptablaðsins tóku þátt í útboðinu. Miðað við svörin fengu lífeyrissjóðirnir úthlutað í það minnsta 13 milljarða króna að kaupverði.

Á fyrsta degi útboðsins var tilkynnt um að Gildi og Lífeyrissjóður verzlunarmanna (LIVE) hefðu skuldbundið sig sem hornsteinsfjárfestar til að kaupa sitthvorar 46,2 milljónir hluta á endanlegu útboðsgengi eða rúmlega 3,65 milljarða króna hvor. Um er að ræða endanlegan hlut Gildis í útboðinu en ekki fékkst staðfest hve mikil fjárfesting LIVE var í útboðinu.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins (LSR), stærsti lífeyrissjóður landsins, svaraði ekki fyrirspurn Viðskiptablaðsins. Söfnunarsjóður lífeyrisréttinda (SL) staðfesti þátttöku í útboðinu en gaf ekki upp kaupverð. Því má ætla að hlutur lífeyrissjóða hafi verið stærri en framangreindir 13 milljarðar króna.

Af þeim sjóðum sem svöruðu fyrirspurninni var Almenni stærstur með 1,3 milljarða króna. Brú kemur þar á eftir með 875 milljónir króna. Birta, fjórði stærsti lífeyrissjóður landsins, fékk 480 milljónir króna úthlutað. Sjá má listann í heild sinni hér fyrir neðan.

Viðskipti á eftirmarkaði 16%-18% yfir útboðsgenginu

Heimildir Viðskiptablaðsins herma að á eftirmarkaði með hlutabréf Íslandsbanka hafi um 10 milljónir hlutir skipt um hendur, stór hluti á verðbilinu 92-93,5 krónur á hlut eða um 16%-18% yfir útboðsgenginu sem var 79 krónur.

Jafnframt herma heimildir blaðsins að ýmsir lífeyrissjóðir hafi einungis fengið milli 10% og 20% af því sem þeir skráðu sig fyrir. Því fyrr sem tilboðin voru lögð inn því stærri hlut fengu þeir. Auk lífeyrissjóða hafi þeir sem hafi fengið úthlutun yfir þeirri milljón króna sem öllum var tryggð verið ógíraðir verðbréfasjóðir og erlendir fjárfestar. Einkahlutafélög, gíraðir verðbréfasjóðir og fjársterkir einstaklingar hafi verið skertir niður í eina milljón króna hver eins og almennir fjárfestar.

Nokkur af stærstu eignastýringarfyrirtækjum heims, þar á meðal Fidelity og Franklin Templeton, voru í hópi erlendra fjárfesta sem tóku þátt í útboðinu, að því er Fréttablaðið greindi frá. Samanlagt fengu erlendir fjárfestar um þriðjung þeirra hluta sem voru í boði eða um samtals 11% af heildarhlutafé Íslandsbanka.

Auk Gildis og LIVE komu sjóðir í stýringu hjá Capital World Investors og RWC Asset Management LLP inn sem hornsteinsfjárfestar og skuldbundu sig til að kaupa 76,9 og 30.8 milljónir hluta eða um 6,1 og 2,4 milljarða króna.

Alls voru seldir 636 milljónir hluta að nafnvirði en heildarsöluvirði útboðsins, að því gefnu að valréttir til að mæta umframeftirspurn verði nýttir, er 55,3 milljarðar króna. Eftirspurn í útboðinu nam 486 milljörðum króna .