Það voru lífeyrissjóðir og sjóðir á vegum Landsbankans sem keyptu 7% hlut  í Icelandair Group fyrir 6,6 milljarða af Framtakssjóði Íslands í fyrradag. Þetta hefur Morgunblaðið eftir heimildarmönnum sínum á verðbréfamarkaði.

Blaðið segir að lífeyrissjóðirnir sem keyptu séu bæði sjóðir sem eigi hluti í Framtakssjóðnum og líka sjóðir sem ekki eigi hlut í Framtakssjóðnum. Framtakssjóðurinn keypti 30% hlut í Icelandair árið 2010 fyrir 3,6 milljarða króna eftir fjárhagslega endurskipulagningu fyrirtækisins, en hefur nú selt allan þann hlut.

Hlutabréfaverð í Icelandair hefur margfaldast frá því að Framtakssjóðurinn keypti hlut sinn.