Fulltrúar lífeyrissjóðanna, sem eiga 33,4% í HS Orku,  beittu neitunarvaldi til að hafna tilboði á 30% hlut HS Orku í Bláa lóninu.
Um miðjan maí setti HS Orka hlut sinn í Bláa lóninu í söluferli og bauð sjóður í stýringu Blackstone, eins stærsta fjárfestingarsjóðs heims, hæst, með tilboði sem var nokkuð yfir væntingum stjórnar HS Orku að því er Fréttablaðið greinir frá.

Nam tilboðið rúmlega 11 milljörðum króna, sem metur Bláa lónið í heild á 37 milljarða. Samkvæmt hluthafasamkomulagi HS Orku þarf samþykki samlagsfélags lífeyrissjóðanna, Jarðvarma, sem heldur utan um eignarhluti þeirra í HS Orku, fyrir meiriháttar ákvörðunum.

Því hafi höfnun þeirra dugað til að stöðva söluna, þó þeir væru í minnihluta, en hin 66,6% eru í eigu Magma Energy, dótturfélags orkufyrirtækisins Alterra frá Kanada. Er mikil óánægja sögð um ákvörðun lífeyrissjóðanna meðal stjórnenda Alterra, en stjórnarformaður HS Orku er Ross Beaty, sem jafnframt er forstjóri og stjórnarformaður Alterra.

Stærstu lífeyrissjóðirnir sem standa að Jarðvarma eru Lífeyrissjóður verslunarmana með tæp 20% og Gildi-lífeyrissjóður með annað eins. Chad Pike, einn af yfirmönnum Blackstone í Evrópu, stýrir sjóðnum sem vildi kaupa í Bláa lóninu, en hann á fyrirtækið sem rekur lúxushótelið Deplar Farm í Fljótunum í Skagafirði.