Árið 2016 festi framtakssjóðurinn Horn III sem rekinn er af Landsbréfum kaup á um 80% hlut í Basko, rekstrarfélagi 10-11 og áður Dunkin Donuts og Iceland, fyrir um 1,5 milljarð króna. Ári seinna var hluturinn kominn upp í 88% en verðmæti Basko hafði þá lækkað í bókum félagsins niður í 1.045 milljónir.

Eins og Viðskiptablaðið fjallaði um gær hefur Basko tapað um 1,3 milljörðum króna á síðustu tveimur rekstrarárum en félagið var keypt af Skeljungi í september fyrir um 33 milljónir króna. Fram kom í samrunaskrá vegna ákvörðunar Samkeppniseftirlitsins vegna kaupanna að Basko ætti í verulegum og alvarlegum rekstrarerfiðleikum.

Sjá einnig: Basko tapaði 246 milljónum

Miðað við kaupverðið á Skeljungs á Basko hefur eign Horn III í félaginu nær þurrkast út en þess ber þó að geta að við kaupin eignaðist Horn III helmingshlut í Eldum rétt en sá hlutur hafði áður verið í eigu Basko en eins og Viðskiptablaðið greindi frá fyrr í dag nam kaupverð á hlutnum 420 milljónum króna.

Sé hluturinn í Eldum rétt jafnmikils virði og hann var við kaup Basko hefur Horn samt sem áður tapað ríflega milljarði króna á fjárfestingu sinni í Basko. Horn III er að langstærstu leyti í eigu íslenskra lífeyrissjóða en stærsti eignandi sjóðsins er Lífeyrissjóður verslunarmanna með 19,9% hlut. Þá á Gildi lífeyrissjóður 15% hlut, Frjálsi lífeyrissjóðurinn 6,25% og Landsbankinn 5,63. Þá eiga Stapi lífeyrissjóður, Brú lífeyrissjóður, Almenni lífeyrissjóðurinn allir 4,17% hlut.