„Í pistlinum eru margar fullyrðingar sem ætla verður að séu byggðar á misskilningi og vankunnáttu um hlutverk og lagareglur sem gilda um lífeyrissjóðina,“ segir í ályktun Landssambands lífeyrissjóða um ummæli Björns Vals Gíslasonar alþingismanns á vefsíðunni Smugunni þann 18. nóvember síðastliðinn.

Björn Valur sagði þar meðal annars tímabært að íhuga breytingar á lögum um lífeyrissjóði og jafnvel skikka sjóðina til að leggja fé í varasjóði til að bregðast við áföllum lántakenda. Séu þeir ekki tilbúnir til þess telur Björn að skoða þurfi bann við lánum þeirra til einstaklinga. Þá segir Björn lífeyrissjóði ekki tilbúna til að bera sömu félagslegu ábyrgð gagnvart lántakendum og krafa er gerð um til ríkis og jafnvel banka.

Í ályktun LL er ítrekað að stjórnendum lífeyrissjóða beri skylda til að gæta að eignum sjóðfélaga sinna. Þeir hafi ekki heimild til að gefa eftir eignir. Að auki er þar mælt gegn því að sjóðirnir vilji ekki taka þátt í að bregðast við efnahagshruninu eða að þeir „berjist af hörku“ gegn hugmyndum stjórnvalda.