Skilmálar í fyrirtækjaskuldabréfum, sem lífeyrissjóðirnir keyptu í aðdraganda bankahruns, voru veikir og voru sjóðirnir því varnarlausir gagnvart eignaflutningi úr þessum fyrirtækjum. Er þetta meðal niðurstaðna í skýrslu nefndar um fjárfestingarstefnu, ákvarðanatöku og áhættumat lífeyrissjóðanna í aðdraganda bankahrunsins.

Skýrslan var kynnt á blaðamannafundi í dag og er þar lagt til að sjóðirnir leiti sameiginlega að leiðum til að bregðast við þessum vanda. Þá var of mikið fjárfest í tengdum fyrirtækjum og í óhefðbundnum fjármálagerningum, s.s. Vafningum og svokölluðum skuldabréfastrúktúrum.

Ein af niðurstöðum nefndarinnar er að almennt hafi þeir sjóðir tapað minnst á hruninu sem höfðu stöðuga fjárfestingarstefnu, dreift eignasafn, sem fjárfestu í hefðbundnum verðbréfum og höfðu takmarkaða hlutabréfaeign, einkum á árunum 2007 til 2008.