Festa lífeyrissjóður er orðin níundi stærsti hluthafi Síldarvinnslunnar með 1,44% hlut, en sjóðurinn var ekki á lista yfir 20 stærstu hluthafa félagsins eftir almennt útboð. Markaðsvirði hlutar Festu í Síldarvinnslunni í lok júnímánaðar nam um 1,56 milljörðum króna miðað við núverandi gengi.

Lífeyrissjóðirnir hafa verið iðnir við fjárfestingar í Síldarvinnslunni frá því að útboði lauk. Stapi lífeyrissjóður er orðinn sjötti stærsti hluthafi félagsins með 1,62% en sjóðurinn var 16. stærsti hluthafinn eftir almennt útboð með um 0,5% hlut. Markaðsvirði hlutarins er um 1,76 milljarður króna.

Aðrir lífeyrissjóðir sem hafa aukið við sig í Síldarvinnslunni eru Gildi lífeyrissjóður sem á nú 10,19% hlut miðað við 9,9% við lok útboðsins og er fjórði stærsti hluthafi Síldarvinnslunnar. Þá er hlutur Lífeyrissjóðs verzlunarmanna nú um 1,47% miðað við 0,9% eftir útboðið. Sjóðurinn er nú áttundi stærsti hluthafi félagsins en var áður níundi stærsti hluthafinn.

Lífeyrissjóður Vestmannaeyja er orðinn 18. stærsti hluthafi félagsins með 0,40% hlut en sjóðurinn var ekki á lista yfir tuttugu stærstu hluthafa félagsins eftir almennt útboð.

Sjóvá og Landsbréf bæta við sig

Lífeyrissjóðirnir eru ekki þeir einu sem hafa verið að auka hlut sinn í félaginu, en Landsbréf juku hlut sinn úr 0,8% í 1,47% og eru nú orðin sjöundi stærsti hluthafi félagsins. Sjóvá er einnig komið á lista yfir tuttugu stærstu hluthafanna eftir að hafa ekki verið á upphaflega listanum með 0,41% hlut og er nú 17. stærsti hluthafi félagsins.

A80, félag í eigu Guðna Rafns Eiríkssonar, dettur út af listanum yfir stærstu hluthafa félagsins, en það átti 0,5% hlut í félaginu eftir almennt útboð. Þá hefur hlutur Kjálkaness minnkað um 1,8% og stendur nú í 17,44% en það er samt sem áður næststærsti hluthafi félagsins.

Sjá einnig: Selja fyrir 1,5 milljarða til viðbótar

Hlutur Samherja í félaginu hefur ekki breyst og er enn 32,64% og þá hefur hlutur Samvinnufélags útgerðarmanna í Neskaupstað ekki heldur breyst, en félagið er þriðji stærsti hluthafinn með 10,97% hlut. Síldarvinnslan hefur lækkað um 5,8% frá útboðinu og standa bréf félagsins þegar þetta er skrifað í 63,8 krónum á hlut.