Þrír stærstu lífeyrissjóðir landsins eru Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins, Lífeyrissjóður verslunarmanna og Gildi lífeyrissjóður. Þessir þrír lífeyrissjóðir áttu 88 milljarða króna af hlutafé að markaðsvirði í félögum sem skráð voru skráð á aðallista Kauphallarinnar 4. júlí sl. Kemur þetta fram í Morgunkorni Greiningar Íslandsbanka.

Heildareign lífeyrissjóða, að undanskilinni eign Framtakssjóðs Íslands, í hlutabréfum skráðra hlutafélaga nam 123 milljörðum króna og eru því þrír stærstu lífeyrissjóðirnir með um 71% af heildar eign allra lífeyrissjóða í skráðum hlutabréfum í Kauphöllinni.

Eign lífeyrisjóðanna hlutafallslega á móti öðrum hluthöfum er æði misjöfn eftir félögum. Til að mynda eiga lífeyrissjóðir um 38,5% í Högum, um 41,5% í Icelandair og um 45% í Vodafone. Hlutfallsleg eign er minni þegar kemur að Össuri hf. og Marel. Minnst eiga lífeyrissjóðirnir hlutfallslega í VÍS en lífeyrissjóðirnir fengu hlutfallslega lítið úthlutað í útboði félagsins. Lífeyrissjóðirnir hafa þó bætt nokkru við hlut sinn frá skráningu VÍS og þannig sýna hluthafalistar t.d. að bæði A og B deild LSR hafa bætt jafnt og þétt við hlut sinn frá skráningu.