fnahags- og viðskiptanefnd Alþingis lagði í vikunni fram frumvarp um auknar fjárfestingarheimildir lífeyrissjóðanna. Yrði frumvarpið að lögum hefði það í för með sér að bréf á First North markaðnum teldust skráð verðbréf í bókum lífeyrissjóðanna. Lífeyrissjóðirnir hefðu þannig mun meiri möguleika á að fjárfesta í slíkum bréfum. Það voru starfsmenn Kauphallar Íslands sem skrifuðu frumvarpið fyrir nefndina. Fjármálaeftirlitið kom ekki að gerð frumvarpsins en í skriflegu svari frá Sigurði G. Valgeirssyni, upplýsingafulltrúa Fjármálaeftirlitsins, segir að Fjármálaeftirlitið geri ráð fyrir að veita umsögn um það við meðferð í þinginu.

Frosti Sigurjónsson, formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis, segir að markmiðið sé að búa til hvata fyrir forsvarsmenn smærri félaga til að skrá þau á skipulagðan markað og keppa þannig um hylli lífeyrissjóðanna.

„Lífeyrissjóðirnir þurfa þá ekki bara að vera með óskráð félög eða einhver örfá félög á aðallista í eignasöfnum sínum heldur geta þeir verið með töluvert úrval af smærri félögum á First North listanum,“ segir Frosti og bendir á að smá og meðalstór fyrirtæki séu uppistaðan í íslensku atvinnulífi.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .