*

laugardagur, 31. júlí 2021
Innlent 18. nóvember 2013 13:25

Lífeyrissjóðirnir fái að kaupa Landsbankann og Landsvirkjun

Viðskiptaráð Íslands telur að fjölga þurfi fjárfestingakostum fyrir lífeyrissjóðina.

Ritstjórn
Aðrir ljósmyndarar

Viðskiptaráð Íslands leggur til að ríkissjóður selji hluti í Landsbankanum og Landsvirkjun. Þannig megi draga úr skuldum ríkissjóðs og fjölga þeim fjárfestingakostum sem lífeyrissjóðirnir hafa yfir að ráða. Með því yrði dregið úr áhættu í fjárfestingu lífeyrissjóðanna. 

„Auðvelt væri að skrá Landsbanka Íslands á markað og selja hluta eða öll bréf bankans í kjölfarið. Hægt væri að stíga smærri skref hvað Landsvirkjun varðar og selja minnihlutaeign í fyrirtækinu til lífeyrissjóða, segir í riti Viðskiptaráðs. Ritið ber yfirskriftina Stórir fiskar í lítilli tjörn: Lífeyrissjóðirnir, gjaldeyrishöftin og mikilvægi góðra stjórnarhátta

Viðskiptaráð leggur einnig til að gera mætti breytingar á lögum um lífeyrissjóði sem væru til þess fallnar að rýmka svigrúm þeirra til að fjárfesta í bréfum skráðum á First North hlutabréfamarkaðnum. Þetta væri til þess fallið að skapa stóraukinn hvata fyrir meðalstór fyrirtæki að skrá bréf sín í Kauphöll Íslands og um leið fjölga fjárfestingarmöguleikum sjóðanna.

Þá segir Viðskiptaráð að aðkoma lífeyrissjóða að einkaframkvæmdum sem snúa að uppbyggingu á innviðum, t.d. í samgöngum, væri einnig áhugaverður kostur. Arðbær verkefni af þessu tagi gætu skapað tiltölulega örugga ávöxtun og myndu samhliða styðja við fjárfestingastig í landinu.