Hrein eign lífeyrissjóðanna nam 2.264 milljörðum króna í lok ágúst og hafa þær aldrei verið meiri. Þetta er um 21,7 milljarða aukninga frá í júlí eða sem nemur 1%.

Fram kemur í Morgunkorni Greiningar Íslandsbanka, að hækkunin sé að mestu tilkomin vegna mikillar aukningar erlendra eigna lífeyrissjóðanna en verðmæti þeirra jókst um 16 milljarða króna á milli mánaða. Á sama tíma jókst verðmæti innlenda eigna um tæpa 1,4 milljarða króna.

Greining Íslandsbanka bendir m.a. á að aukning erlendra eigna lífeyrissjóðanna skrifist á samspil gengisþróunar og góðs gengis erlendra hlutabréfamarkaða í ágúst. Gengi krónunnar gagnvart helstu gjaldmiðlum veiktist um 2,6%  í mánuðinum sem jók virði erlendra eigna í krónum talið. Á sama tíma var ágætur gangur á hlutabréfamörkuðum erlendis, svo sem í Þýskalandi þar sem gengi hlutabréfa hækkaði um 3% og í Frakklandi um 4%. Þá hækkaði FTSE-vísitalan í London um 2%.

Í því ljósi hafi ekki komið á óvart að eignir lífeyrissjóðanna í erlendum hlutabréfasjóðum hafi hækkað um 11 milljarða í ágúst á meðal eign þeirra í erlendum skuldabréfasjóðum hækkaði um 2,4 milljarða. Alls nema erlendar eignir lífeyrissjóðanna um 497,8 milljörðum króna sem er 22% af heildareignum sjóðanna.