Hrein eign lífeyrissjóðanna hækkaði um 30,2 milljarða króna í september eða um 1,3% á milli mánaða og nam í lok mánaðarins 2.295 milljörðum króna samanborið við 2.265 milljarða í lok ágúst. Önnur eins staða hefur aldrei áður sést í sögu lífeyrissjóðanna.

Þetta er mun meira en Greining Íslandsbanka bjóst við í Morgunkorni sínu í gær. Þar kom m.a. fram að eignir lífeyrissjóðanna hafi að jafnaði hækkað um 20,6 milljarða króna á mánuði á fyrstu sjö mánuðum ársins. Þá hafi virði eignanna hækkað um 22,6 milljarða á milli mánaða í ágúst en það var meiri hækkun en alla jafna. Hækkunin nú er 10 milljörðum yfir meðaltalinu.

Fram kemur í hagtölum Seðlabankans eins og í ágúst er er það hækkun á erlendum eignum sem jók verðmæti eignasafnsins í september. Verðmæti þeirra nam 516,6 milljörðum króna í lok september og hækkaði það um 18,8 milljarða frá í ágúst. Þar af hækkaði verðmæti erlendra hlutabréfa og hlutabréfasjóða um 17,3 milljarða króna.

Á sama tíma nam innlend verðbréfaeign lífeyrissjóðanna 1.650 milljörðum króna. Það er 1,4 milljörðum minna en í ágúst. Þar af lækkaði verðmæti verðbréfa fyrirtækja um 6,7 milljarða. Á móti hækkaði verðmæti verðbréfa ríkissjóðs um 4,2 milljarða.