Í viðtali við Hrafn Magnússon, framkvæmdastjóra Landssamtaka lífeyrissjóðanna, í Viðskiptablaðinu er nokkuð vikið að hlutverki og ávöxtunarkröfu lífeyrissjóðanna.

Því er ekki úr vegi að spyrja Hrafn um hina svokölluðu 3,5% kröfu sjóðanna á fjárfestingar sínar. Sú ávöxtunarkrafa hefur verið gagnrýnd, aðallega með þeim hætti að hún sé bæði óþörf og óraunhæf en þvert á þá gagnrýni hafa forsvarsmenn sjóðanna varið ávöxtunarkröfuna með kjafti og klóm.

„Ég tel að þessi umræða sé á villigötum. Til lengri tíma litið ætlum við okkur að ná 3,5% raunávöxtun,“ segir Hrafn.

„Það er ekki þar með sagt að við getum ekki keypt skuldabréf á lægri ávöxtunarkröfu, ef svo ber undir. Ef við værum ekki með gjaldeyrishöft hér á landi gætum við fjárfest erlendis á hlutabréfamarkaði og í framtakssjóðum með hærri ávöxtunarkröfu, til að ná þessu marki. Síðustu 20 árin hefur raunávöxtun lífeyrissjóðanna oft á tíðum verið langt yfir 3,5%.“

Hrafn segir að íslenskt þjóðfélag sé þó í ákveðnum sýndarveruleika vegna gjaldeyrishaftanna og vegna þess hvernig hér sé að hlaðast upp fjármagn sem ekki er hægt að koma út með neinum skaplegum hætti.

„Á meðan slíkt ástand varir er vöxtunum því miður handstýrt niður á við. Ef við náum ekki 3,5% raunávöxtun til langs tíma er tvennt í boði fyrir lífeyrissjóði á almennum vinnumarkaði, það er að hækka iðgjöldin eða lækka lífeyrinn,“ segir Hrafn.

„Við höfum þetta tæki árlega til þess að fínstilla þessi þætti. Við færum ekki niður ávöxtunarkröfuna nema við sjáum fram á að ná ekki þessum markmiðum til frambúðar. Hins vegar er engin ástæða að fara á taugum þó raunávöxtun lífeyrissjóðanna sé nú um stundir undir 3,5% ávöxtunarkröfunni. Raunávöxtun lífeyrissjóðanna á síðasta ári verður mun betri en árið 2009 og þeir sjóðir sem þegar hafa tilkynnt uppgjör sín eru með raunávöxtunina á bilinu 3,4% til 4,1%. Ég hef hins vegar ekki trú á því að vegið meðaltal raunávöxtunar allra sjóða verði svona hátt en við skulum spyrja að leikslokum.“

Hrafn mun láta af störfum nú í sumar eftir 36 ára starf. Í viðtali við Viðskiptablaðið fer Hrafn yfir árangur sjóðanna á þessum tíma, gagnrýni á störf sjóðanna fyrir bankahrun, umræðu um hlutverk þeirra, stjórnskipan og margt fleira.