Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, segist vona að hvorki almenningur eða lífeyrissjóðir sem félagsmenn VR greiða í taki þátt í útboði Síldarvinnslunnar sem fer fram í byrjun næstu viku. „Síldarvinnslan með þjóðarauðlind sett á markað,“ skrifar Ragnar í færslu á Facebook.

„Hver er staða lífeyrissjóða varðandi fjárfestingu í félagi sem stjórnað er af einstaklingum sem liggja undir rökstuddum grun um peningaþvætti, skattaundanskot, launaþjófnað og mútur, í mörgum löndum. Sem hlýtur þá að flokkast undir skipulagða alþjóðlega glæpastarfsemi,“ segir Ragnar.

Hann veltir því fyrir sér hvort útboðið sé leið til að „veiða almenning inn í net útgerðarfyrirtækja“ til þess að ná sátt um fiskveiðistjórnunarkerfið. Þannig sé almenningi seld eigin auðlind sem fullkomni „vitleysuna og ránið á auðlindum þjóðarinnar“, að sögn Ragnars. Hann telur jafnframt að næstu Alþingiskosningar eigi að snúast um breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu.

Sjá einnig: LIVE geti ekki verið vopn í kjarabaráttu

Þetta er í annað sinn á skömmum tíma sem Ragnar beitir sér gegn fjárfestingu lífeyrissjóða í útboði á hlutabréfamarkaði Kauphallarinnar en hann kallaði eftir sniðgöngu Lífeyrissjóðs verzlunarmanna (LIVE) í hlutafjárútboði Icelandair síðasta haust.

Seðlabanki Íslands gagnrýndi fyrr í mánuðinum hvernig LIVE stóð að ákvörðuninni um þátttöku í hlutafjárútboði Icelandair. Bankinn taldi að ekki hafi verið gætt að „með fullnægjandi hætti að meta hæfi einstakra stjórnarmanna við undirbúning og ákvörðun um hvort sjóðurinn tæki þátt í hlutafjárútboðinu“.

Síldarvinnslan með þjóðarauðlind sett á markað. Hver er staða lífeyrissjóða varðandi fjárfestingu í félagi sem stjórnað...

Posted by Ragnar Þór Ingólfsson on Thursday, 6 May 2021