Forsvarsmenn lífeyrissjóðanna meta nær engar líkur á því að þeim verði veitt heimild til erlendra nýfjárfestinga á næstu fimm árum. Þeir eru aðeins bjartsýnni á að heimildin verði veitt á næstu tíu árum en meta þó innan við helmingslíkur til þess. Kemur þetta fram í könnun sem framkvæmd var í nóvember í fyrra fyrir meistaraverkefni í viðskiptafræðideild HÍ með þátttöku forsvarsmanna stærstu lífeyrissjóða landsins, en fjallað er um málið í Markaðspunktum greiningardeildar Arion banka.

Þar kom fram að sjóðirnir telja æskilegast að um þriðjungur eigna þeirra væri bundinn í erlendum verðbréfum í dag og að eftir áratug væri hlutfall erlendra eigna sjóðanna 40% af heildareignum. Í dag er þetta hlutfall nærri 20%.

Í spálíkani sem sett var upp til að meta fjárfestingavilja lífeyrissjóða í erlendri mynt innan gjaldeyrishafta er reynt að varpa ljósi á það hve mikið fjármagn sjóðirnir þyrftu að fara með til erlendra fjárfestinga til þess að ná fyrrgreindu hlutfalli erlendra eigna í 40% af heildareignum sjóðanna eftir tíu ár.

Forsendur spálíkansins voru sóttar í spár Seðlabanka Íslands og Hagstofu Íslands ásamt því að forsenda um meðalútgreiðslu lífeyris til næstu áratuga var fengin úr skýrslu Samtaka atvinnulífsins. Einnig var gert ráð fyrir að eignaflokkar ávaxtist um 3,5% að raunvirði á ári. Árleg fjárfestingaþörf lífeyrissjóðanna er á bilinu 150-200 milljarðar króna og samkvæmt spálíkaninu þyrftu lífeyrissjóðirnir að ráðstafa á bilinu 60-80 milljörðum á ári hverju í erlendar fjárfestingar til þess að auka hlutfall erlendra eigna upp í 40% af heildareignum sjóðanna árið 2022.