Hrein eign lífeyrissjóða nam 2.241 milljarði króna í lok maí. Þetta er fjögurra milljarða króna hækkun frá í apríl.

Fram kemur í upplýsingum Seðlabankans að Innlend verðbréfaeign lífeyrissjóðanna hækkaði um 17,7 milljarða króna á milli mánaða og nam eignin 1.633, milljörðum króna. Þar af hækkuðu skuldabréf útgefin af ríkissjóði um 13,4 milljarða króna á milli mánaða og íbúðabréf um 4 milljarða króna.

Þá lækkaði erlend verðbréfaeign hins vegar um 16,2 milljarða króna frá apríl og nam 499 milljörðum í lok maí. Þar af lækkaði eign í erlendum hlutabréfasjóðum um 13,8 milljarða og erlend hlutabréf um 1,8 milljarða króna. Af öðrum breytingum má nefna að skuld vegna afleiðusamninga lækkaði um 7,7 milljarða króna í mánuðinum og innlán lífeyrissjóða lækkuðu um tæpa 2 milljarða. Aðrar eignir lífeyrissjóðanna lækkuðu um 3,3 miljarða . Þá lækkuðu aðrar eignir lífeyrissjóða um 3,3 ma.kr. í maí.

44% vöxtur frá hruni

Lífeyrissjóðirnir áttu rúma 1.769 milljarða króna í maí árið 2008. Upphæðin var komin í 1.771 milljarð í lok september sama ár. Mánuði síðar eftir að viðskiptabankarnir þrír voru farnir á hliðina hafði eignasafnið hrunið niður í tæpa 1.554 milljarða. Samdrátturinn nemur rúmum 12%. Miðað við heildareignir lífeyrissjóðanna nú hafa þær aukist um 44% frá lokum október árið 2008.

Upplýsingar um þróun eigna lífeyrissjóðanna frá í maí árið 2006 og fram í maí á þessu ári. Heimild/Seðlabanki Íslands.