Lífeyrissjóðirnir hafa staðið í deilum við gömlu bankana vegna gjaldmiðlaskiptasamninga sem gerðir voru fyrir hrun og hefur LSR náð samningum við Landsbankann og Glitni. Viðræður við Kaupþing eru langt komnar að sögn Hauks Hafsteinssonar, framkvæmdastjóra sjóðsins. Því hefur verið haldið fram að sjóðirnir hafi ekki þurft á svona samningum að halda og þeir hafi jafnvel verið plataðir til að gera þá.

„Þessi umræða hefur alltaf verið byggð á mjög miklum misskilningi. Sjóðirnir kaupa erlend verðbréf og þeim fylgir ákveðin áhætta, sem tengist verðsveiflum á bréfunum sjálfum. Til viðbótar er svo gengisáhætta sem kemur til af því að lífeyrisskuldbindingarnar eru í krónum en eignirnar í erlendri mynt. Þessar sveiflur hafa menn leitast við að takmarka með samningum sem þessum. Þetta gera lífeyrissjóðir um allan heim. Nýjar kannanir sýna að um 80% allra lífeyrissjóða eru með einhvers konar gjaldmiðlastýringu og það þó að langflestir sjóðirnir starfa á evrusvæði eða dollarasvæði. Þeir töldu samt að þeir þyrftu á gjaldmiðlastýringu að halda. Svo velta menn því fyrir sér hvort íslenskir lífeyrissjóðir á krónusvæðinu þurftu slíka stýringu.“

„Annað sem menn hafa sagt, sem mér þykir líka mikill misskilningur, er að gjaldmiðlaskiptasamningarnir hafi verið óþarfir af því að skuldbindingarnar eru langtímaskuldbindingar. Lífeyrissjóðalögin gera ráð fyrir því að almennu sjóðirnir þurfi að auka iðgjöld eða skerða réttindi ef staðan versnar og hjá okkur þarf að hækka eða lækka iðgjöld við sömu aðstæður. Ef erlendar eignir sveiflast mikið vegna gengis krónunnar þá getum við lent í þeirri aðstöðu að þurfa að grípa til slíkra aðgerða. Þess vegna er mikilvægt að geta jafnað sveiflurnar með gjaldmiðlaskiptasamningum, því ella er hætt við mismunun á milli sjóðfélaga sem komnir eru á lífeyri og þeirra sem gera það siðar.“

Ítarlegt viðtal er við Hauk í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum Tölublöð hér að ofan.