Lars Rohde, forstjóri danska lífeyrissjóðsins ATP, formaður stjórnar sjóðsins og tveir stjórnarmenn sæta gagnrýni þessa dagana vegna námskeiðs sem þeir fóru á í Brasilíu í september í fyrra. Kostnaðurinn nam tæpum 315 þúsund dönskum krónum, rúmum 7,2 milljónum íslenskra króna. Kostnaðurinn skrifast á flug á fyrsta farrými frá Danmörku til Brasilíu, mat og gistingu á fimm stjörnu hóteli í þá fimm daga sem fjórmenningarnir dvöldu ytra. Flugið eitt og sér kostaði 200 þúsund danskar krónur, jafnvirði 4,6 milljóna íslenskra króna.

ATP er umfangsmesti lífeyrissjóður Danmörkur. Hann sankaði að sér hlutabréfum stoðtækjafyrirtækisins Össurar um það leyti sem þau voru tekin til viðskipta í kauphöllinni í Kaupmannahöfn í september árið 2009. Lífeyrissjóðurinn er nú næst stærsti hluthafi Össurar með 6,2% hlut. Helsti hluthafi Össurar er danski sjóðurinn William Demant Invest.

Jørgen Søndergaard, formaður stjórnar ATP-sjóðsins, tekur undir gagnrýnina  í samtali við danska miðilinn FinansWatch og bendir á að einhverjum þyki kostnaðurinn mikill. Á móti hafi þótt tilefni til að sitja námskeiðið og kanna fjárfestingarkosti fyrir ATP í Brasilíu.