Sigurjóni Björnssyni, framkvæmdastjóra Eftirlaunasjóðs starfsmanna Hafnarfjarðarbæjar, hefur verið sagt upp störfum að því er kemur fram í frétt Fréttatíimans. Í henni segir að heildarskuldbindingar sjóðsins hafi verið neikvæðar um árabil. Í rannsóknarskýrslu lífeyrissjóðanna megi þannig sjá að þær hafi verið  neikvæðar um 68 prósent árið 2006 en 78 prósent árið 2009. Ekki hafi verið  greint frá nýrri tölum í skýrslu rannsóknarnefndar lífeyrissjóðanna en þar komi fram að „ljóslega“ hefði mátt standa betur að fjárfestingum sjóðsins. Guðmundur Rúnar Árnason, bæjarstjóri, er núverandi formaður stjórnar Eftirlaunasjóðsins.

Í gögnum sem Fréttatíminn hefur undir höndum og Fjármálaeftirlitið sendi frá sér 6. mars segir að ekki hafi verið ráðist í allar þær úrbætur sem eftirlitið hafi farið  fram á í skýrslu sem það gaf út síðasta haust. Athugasemdirnar hafi verið margar og misalvarlegar en þó svo alvarlegar að Fjármálaeftirlitið hafi mælst til  þess að stjórn sjóðsins skoðaði að hann sameinaðist öðrum sjóði eða sjóðum. Í fréttinni segir að tekist hafi verið  á um málefni Eftirlaunasjóðsins í bæjarráði og bæjarstjórn. Sjálfstæðismenn segi meirihlutann hafa sofið á verðinum en bæjarstjórinn segi sjálfstæðismenn nú vilja standa í vegi fyrir umbótum á sjóðunum.