Lífsverk lífeyrissjóður samþykkti á aðalfundi í apríl síðastliðinn að allir sem lokið hafa grunnnámi frá viðurkenndum háskóla geti orðið sjóðsfélagar, og hefur Fjármála- og efnahagsráðuneytið nú staðfest breytingarnar.

Áður bundinn við raungreinanemendur

Áður voru inngönguskilyrðin bundin við grunnnám í raungreinum og meistaragráðu í öðrum háskólagreinum.

Telja stjórnendur sjóðsins að með þessu móti verði unnt að efla sjóðinn enn frekar og fjölga sjóðsfélögum, án þess að glata sérstöðu hans. Sjóðurinn er sá eini sem er eingöngu ætlaður háskólamenntuðu fólki.

Lág tíðni örorku

Í fréttatilkynningu kemur fram að tíðni örorku sé lág meðal sjóðsfélaga og fyrir hverja krónu greidds iðgjalds sé ávinnsla lífeyrisréttinda almennt hærri en hjá öðrum aldurstengdum lífeyrissjóðum á almennum markaði.

„Þá gefst sjóðfélögum kostur á að leggja hluta af skylduiðgjaldi í séreignarsjóð sem veitir meiri sveigjanleika við útgreiðslu og erfist að fullu við fráfall sjóðfélaga.

Lífsverk hefur verið þekktur fyrir góð kjör á íbúðalánum, m.a. vegna hagstæðrar samsetningar sjóðfélaga, sem gerir það að verkum að vanskil eru fátíð. Vextir á verðtryggðum lánum eru nú 3,5% og frá því í febrúar hefur Lífsverk  einnig boðið óverðtryggð lán með föstum vöxtum til 6 mánaða í senn, nú 6,5%.

il þess ennfremur að koma til móts við yngri sjóðfélaga er þeim sem eru að kaupa sína fyrstu íbúð veittur helmingsafsláttur af lántökugjöldum. Ekkert uppgreiðslugjald er á lánum Lífsverks,“ segir í fréttatilkynningunni.

Hægt er að velja milli þriggja misáhættusamra ávöxtunarleiða í séreignadeild sjóðsins en öllum er heimilt að gera samning um viðbótarsparnað við sjóðinn sem jafnframt veitir lánsrétt.