*

mánudagur, 6. júlí 2020
Fólk 1. maí 2018 12:21

Lífeyrissjóður ræður markaðsstjóra

Svanhildur Sigurðardóttir hefur verið ráðin til Lífsverks lífeyrissjóðs, sem er einungis opinn þeim sem eru með háskólamenntun.

Ritstjórn
Svanhildur Sigurðardóttir, nýr markaðsstjóri Lífsverk, hefur starfað fyrir Hvíta húsið og Ölgerðina þar sem hún innleiddi stefnu um samfélagsábyrgð.
Aðsend mynd

Svanhildur Sigurðardóttir hefur verið ráðin markaðs- og kynningarstjóri Lífsverks lífeyrissjóðs. Staðan er ný innan sjóðsins en ákveðið var að ráða í starfið eftir stefnumótun stjórnar og starfsmanna á síðasta ári. Sjóðurinn var stofnaður 1954 og í upphafi var hann einungis fyrir verkfræðinga en í dag geta allir orðið sjóðfélagar sem lokið hafa grunnnámi í háskóla.

Svanhildur er með BA gráðu í stjórnmálafræði frá HÍ ásamt diploma gráðu í markaðssamskiptum og almannatengslum frá Opna háskólanum í Reykjavík. Hún var áður markaðsrágjafi hjá Hvíta húsinu og þar á undan samfélags- og samskiptastjóri hjá Ölgerðinni og bar þar m.a. ábyrgð á innleiðingu stefnu Ölgerðarinnar um samfélagsábyrgð.

Lífsverk hefur myndað sér sérstöðu vegna betri ávinnslu réttinda sjóðfélaga heldur en gengur og gerist á markaðinum. Þá hefur Lífsverk alla tíð boðið sjóðsfélögum hagstæð sjóðsfélagalán og við kaup á fyrstu eign gefst nú kostur á láni með veðhlutfalli allt að 85% af söluvirði fasteignar. Stjórn sjóðsins er eingöngu skipuð sjóðfélögum segir í fréttatilkynningu frá sjóðnum.

Svanhildur segir spennandi verkefni framundan; „Ég er full tilhlökkunar að vinna að bættri upplýsingagjöf til sjóðfélaga og kynna Lífsverk fyrir nýjum sjóðfélögum. Sjóðurinn hefur skýra sérstöðu sem fellur vel að kröfum háskólafólks,” segir Svanhildur.

Einnig þykir henni mikilvægt að Lífsverk hefur nýverið sett sér stefnu um samfélagsábyrgð og gerst aðili að UN PRI, sem eru viðmið Sameinuðu þjóðanna um ábyrgar fjárfestingar.